Fara í efni

Dýravelferð um áramót

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Áramótin nálgast og þá er nauðsynlegt að muna sérstaklega eftir dýrunum sem eru víða í nágrenni okkar. Það er gamall siður að skjóta upp flugeldum um áramótin, en því miður hefur nokkuð borið á þeim ósið á undanförnum árum að þessi skot eru byrjuð löngu fyrir áramót og halda jafnvel áfram dagana þar á eftir.


Við þessar aðstæður líður mörgum dýrum illa. Dýraeigendur, sérstaklega þeir sem eiga hunda, ketti og hesta kannast vel við þann óróa og angist sem dýr þeirra ganga í gegnum á þessum tíma vegna þess hávaða og ljósagangs sem fylgir þessum flugeldaskotum. Því miður eru mörg dæmi um að blessuð dýrin reyni að forða sér frá þessum ólátum og strjúki að heiman og þá jafnvel til fjalla og óbyggða og finnist ekki fyrr en löngu síðar eftir mikla leit. Dæmi eru um að hestar á útigangi sturlist við þessar aðstæður og brjóti sér leið úr girðingum og í veg fyrir umferð þar sem alvarleg slys hafa orðið.     


Því er þess eindregið farið á leit við allan almenning að það sýni dýrunum þá virðingu að stunda flugeldaskot eingöngu á gamlárskvöld. Það hjálpar dýraeigendum við að grípa til ýmsra ráðstafana, ef þeir vita til þess að dýrum þeirra líði illa á þessum tíma. Það helsta sem hægt er að gera er eftirfarandi.


  • Hafa dýrin lokuð inni, loka og byrgja glugga og hafa útvarp í gangi. Yfirleitt er best að hafa ljósin kveikt, til að draga úr ljósaglömpum. En í sumum tilfellum getur verið gott að gefa dýrunum kost á að koma sér í felur innandyra.
  • Í þéttbýlinu er best er að halda köttum alveg inni dagana í kringum áramót og hafa hunda í taumi þegar þeim er hleypt út.
  • Ef ofangreint er ekki talið nægjanlegt, þá er gæludýraeigendum ráðlagt að tala strax við sinn dýralækni og tímanlega fyrir áramót og fá ráðleggingar og jafnvel lyf við þessum vanda. En fólk er varað við að gefa dýrum róandi lyf nema í samráði við dýralækni. 
  • Hestum sem komnir eru a gjöf í hesthúsum skal gefið vel, hafa ljósin kveikt og útvarp í gangi. Eigendur ættu einnig að vitja þeirra á þessum tíma.
  • Gott er að gefa hestum vel sem eru á útigangi og halda þeim á kunnuglegum slóðum, þar sem þau fara sér síður að voða ef hræðsla grípur þau.

Getum við bætt efni síðunnar?