Fara í efni

Dýralæknaþjónusta í dreifðum byggðum - samningar auglýstir

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun auglýsir eftir sjálfstætt starfandi dýralæknum til að taka að sér almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu í dreifðum byggðum landsins í samræmi við reglugerð nr. 846/2011. Reglugerðinni er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna þjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landssvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður og/eða verkefni dýralækna af skornum skammti.

Gerður verður þjónustusamningur fyrir hvert þjónustusvæði við viðkomandi dýralækni eða dýralækna. Samningar eru gerður til 5 ára og gilda frá og með 1. nóvember 2019. Samningarnir verða uppsegjanlegir eins og núverandi samningar auk þess sem í þeim verða endurskoðunarákvæði með vísan til breytinga sem kunna að verða gerðar í kjölfar niðurstöðu starfshóps ráðherra um þjónustu dýralækna í dreifðum byggðum og vaktþjónustu dýralækna. Matvælastofnun tryggir skv. samningnum mánaðarlega greiðslu til að sinna dýralækna- og bráðaþjónustu á víðkomandi þjónustusvæði.

Dýralæknir sem gerir þjónustusamning skal vera með starfsstöð innan hlutaðeigandi þjónustusvæðis til að tryggja eftir föngum að dýraeigendur fái ávallt dýralækna- og bráðaþjónustu innan hæfilegs tíma. Dýralækninum er heimilt að sinna bráða- og dýralæknaþjónustu á öðrum svæðum en tilgreind eru í samningi þessum. Með sama hætti er öðrum dýralæknum heimilt að bjóða fram þjónustu sína á þjónustusvæðinu. Æskilegt er að umsækjandi hafi góða þekkingu á staðháttum og sjúkdómastöðu á viðkomandi svæði. Gerð er krafa um góða íslenskukunnáttu.

Um eftirfarandi þjónustusvæði er að ræða:

  • Þjónustusvæði 1: Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundafjarðarbær, Helgafellssveit og Stykkishólmsbær.
  • Þjónustusvæði 2: Dalabyggð, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og fyrrum Bæjar¬hreppur.
  • Þjónustusvæði 3: Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur.
  • Þjónustusvæði 4: Húnaþing vestra (nema fyrrum Bæjarhreppur), Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd.
  • Þjónustusvæði 5: Þingeyjarsveit (nema Fnjóskadalur), Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur og Norðurþing (vestan Blikalónsdals).
  • Þjónustusvæði 6: Norðurþing (austan Blikalónsdals), Svalbarðshreppur, Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur.
  • Þjónustusvæði 8: Fáskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður, Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur.
  • Þjónustusvæði 9: Sveitarfélagið Hornafjörður.
  • Þjónustusvæði 10: Skaftárhreppur og Mýrdalshreppur.

Nánari upplýsingar um dýralæknaþjónustuna og gerð þjónustusamnings veitir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir (sigurborg.dadadottir hjá mast.is)  í síma 530 4800. Jafnframt er vísað til reglugerðar um dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum landsins

Umsóknir skulu sendar í tölvupósti á netfangið starf@mast.is merktar “Dýralæknir – þjónustusvæði”. Umsóknarfrestur er til og með 9. september 2019.


Getum við bætt efni síðunnar?