Fara í efni

Dýraeftirlitsmaður víkur tímabundið

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur ákveðið í samráði við dýraeftirlitsmann sem starfar hjá stofnuninni að hann hverfi tímabundið frá störfum meðan ásakanir um að hann hafi í nokkrum tilvikum ekki sinnt skyldum sínum um umhirðu og eftirlit með stóðhestagirðingum verða teknar til skoðunar.

Þessi starfsmaður var ráðinn til Matvælastofnunar um áramótin þegar búfjáreftirlit færðist frá sveitarfélögunum til stofnunarinnar, samkvæmt lögum sem þá tóku gildi. Um er að ræða stöðu sérfræðings sem sinnir eftirliti með dýrahaldi, þ.m.t. fóðrun og aðbúnaði, ásamt móttöku og úrvinnslu tilkynninga um illa meðferð dýra.

Starfsmaðurinn uppfyllti allar kröfur sem gerðar voru til starfsins og hafði í rúman áratug sinnt sambærilegu starfi fyrir sveitarfélög í Árnes- og Rangárvallasýslum. Í ráðningaferlinu hafði Matvælastofnun spurnir af því að haustið 2007 hafi Landbúnaðarstofnun haft til skoðunar og gert alvarlegar athugasemdir við fóðurástand og umhirðu stóðhests sem tímabundið var í umsjón viðkomandi starfsmanns. Það var mat dýralækna að hesturinn hafi ekki orðið fyrir varanlegum skaða, engin kæra var lögð fram og þótti ekki ástæða til að grípa til frekari aðgerða.

Í kjölfarið sinnti starfsmaðurinn áfram störfum sínum sem búfjáreftirlitsmaður hjá viðkomandi sveitarfélögum og hafði framangreint mál engin áhrif þar á. Engu að síður þótti Matvælastofnun rétt að leita nánari upplýsinga um hæfni hans og störf hjá sveitarfélögunum og við kynbótasýningar. Umsagnir þessara aðila voru jákvæðar og ekkert kom þar fram sem kastaði rýrð á störf hans við eftirlit með dýrahaldi. Í ljósi hæfnismats Matvælastofnunar og jákvæðra umsagna var gengið frá ráðningu starfsmannsins.

Á síðustu dögum hafa Matvælastofnun borist upplýsingar um önnur mál sem tengjast umræddu tilviki árið 2007 eða umhirðu með stóðhestagirðingum á ábyrgð hlutaðeigandi á árunum 2006 og 2009. Stofnuninni og dýraeftirlitsmanninum þykir því rétt að fela óháðum aðilum að skoða umrædd mál og hvort gætt hafi verið að eðlilegum starfsháttum við eftirlit með stóðhestagirðingum á hans vegum.

Athugun þessi hefur þegar verið sett í gang, því ekki má draga úr trúverðugleika stofnunarinnar né véfengja verk þeirra sem þar starfa. Málið verður síðan tekið til endanlegrar ákvörðunar þegar niðurstöður liggja fyrir, en skoðun málsins verður í höndum þriggja manna. Þeir eru dýralæknir, sem sæti á í Dýralæknaráði, lögfræðingur frá Landlögmönnum og fulltrúi frá Landbúnaðarháskóla Íslands. 


Getum við bætt efni síðunnar?