Breyttar reglur um hreindýrakjöt
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð nr. 665/2014 um (2.) breytingu á reglugerð nr. 580/2012 um framleiðslu og markaðssetningu aðila undir smáræðismörkum á matvælum og afhendingu frumframleiðenda á litlu magni beint til neytenda og staðbundinna smásölufyrirtækja.
Reglugerðarbreytingin snýr að markaðssetningu á hreindýrum beint frá veiðimönnum, en nú verður veiðimönnum heimilt að afhenda hreindýr beint til neytenda eða smásölufyrirtækja sem afhendir beint til neytenda, án þess að þurfa að fara með hreindýrið í gegnum skoðun í sláturhúsi eða verkunarstöð. Hver veiðimaður má afhenda eitt dýr með þessum hætti. Við gerð þessara nýju reglna var tekið mið af sænskum reglum.
Rétt er að leggja áherslu á að eftir sem áður þarf hreindýr að fara í gegnum sláturhús eða verkunarstöð og fara í gegnum heilbrigðisskoðun sé ætlunin að vinna það eða dreifa á almennum markaði, þ.e. fara í gegnum kjötvinnslu sem dreifir afurðum á almennan markað og sú leið er auðvitað opin öllum hreindýraveiðimönnum áfram, kjósi þeir svo.