Fara í efni

Brexit án samnings: inn- og útflutningur dýraafurða

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Brexit án samnings þýðir að Bretland verður að þriðja ríki gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Strangar reglur gilda um innflutning matvæla frá þriðju ríkjum til Íslands. 

Útlit er fyrir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu (ESB) þann 31. október nk. en óvissa ríkir um hvort samningur um útgönguna náist milli Bretlands og Evrópusambandsins. Fari svo að Bretland yfirgefi ESB án samnings er mikilvægt að hagsmunaaðilar og stjórnvöld verði undir það búin. Bretland mun þá teljast þriðja ríki samkvæmt þeim reglum EES samningsins um matvælaöryggi (og þar með íslenskri löggjöf) sem gilda um inn- og útflutning matvæla til og frá Íslandi. Matvæli sem framleidd eru í ESB/EES ríkjum og í samræmi við evrópska matvælalöggjöf eru í frjálsu flæði innan EES. Í þessu felst að ekki er þörf á vottun yfirvalda vegna flutnings matvæla (dýraafurða) á milli ríkja sambandsins.

Innflutningur dýraafurða frá Bretlandi til Íslands

Ströng skilyrði gilda um innflutning matvæla frá þriðju ríkjum, þ.e. ríkjum sem ekki eru innan EES. Gangi Bretland úr ESB þann 31. október nk. án samnings mun eftirfarandi gilda um innflutning dýraafurða frá Bretlandi til Íslands frá og með 1. nóvember:

  1. Varan skal framleidd á viðurkenndri starfsstöð og merkt samþykkisnúmeri starfsstöðvarinnar.
  2. Sendingunni skal fylgja frumrit af heilbrigðisvottorði fyrir Evrópumarkað, gefið út af yfirvöldum útflutningslands, eða yfirlýsing skipstjóra þegar um er að ræða beina löndun frystiskipa.
  3. Innflutningur skal skráður í Traces með a.m.k. 24 klst fyrirvara. Innflytjandi ber ábyrgð á skráningunni en leita má til flutningsmiðlara varðandi framkvæmd hennar.
  4. Sendingin skal flutt til landsins á landamærastöð sem samþykkt er fyrir viðkomandi vöru.
  5. Innflytjandi ber kostnað af landamæraeftirliti skv. gjaldskrá MAST.
  6. Taka þarf tillit til séríslenskra skilyrða varðandi hráar dýraafurðir.

Útflutningur dýraafurða frá Íslandi til Bretlands

Hvað útflutning dýraafurða frá Íslandi til Bretlands varðar hafa bresk stjórnvöld gefið til kynna að ekki verði gerð krafa um heilbrigðisvottorð frá ESB/EES ríkjum, í a.m.k. 6 mánuði eftir útgöngu. Leiðbeiningar hafa verið birtar á vef breskra stjórnvalda en þar segir m.a. að innflytjandi vörunnar í Bretlandi skuli tilkynna um innflutninginn til dýralæknayfirvalda. 

Skýringar

Þriðju ríki

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Traces

Skráningarkerfi fyrir viðskipti með dýr/erfðaefni/dýraafurðir frá þriðju ríkjum til Evrópusambandslanda og innan sambandsins (TRAde Control and Expert System).

Viðurkennd starfsstöð

Matvælafyrirtæki s.s. fiskvinnsla, sláturhús eða kjötvinnsla sem uppfyllir skilyrði Evrópulöggjafar þar að lútandi. Slíkum starfsstöðvum er úthlutað s.k. samþykkisnúmeri. 

Samþykkisnúmer

Númer sem matvælafyrirtækjum er úthlutað standist þau kröfur Evrópulöggjafar þar að lútandi. Afurðir skulu merktar með auðkennismerki sem inniheldur samþykkisnúmer.

Landamærastöð

Eftirlitsstöð staðsett við landamæri EES gagnvart þriðju ríkjum þar sem landamæraskoðun á sendingum með dýraafurðir frá þriðju ríkjum fer fram. Á Íslandi eru 5 samþykktar landamærastöðvar.

Landamæraeftirlit

Skoðun dýralæknayfirvalda á sendingum með dýraafurðum sem fer fram á landamærastöðvum, í henni felst að lágmarki skoðun á innflutningsgögnum en í öðrum tilfellum einnig vöruskoðun og jafnvel sýnataka.

CVED/ Samræmda dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorðið

Vottorð gefið út í Traces til staðfestingar á því að vara/sending hafi staðist landamæraeftirlit og sé þar með í frjálsu flæði innan EES (Common Veterinary Entry Document).

Opinbert heilbrigðisvottorð

Heilbrigðisvottorð fyrir Evrópumarkað gefið út af dýralæknayfirvöldum í viðkomandi ríki.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?