Fara í efni

Bretar leita ráða hjá Íslendingum vegna kampýlóbakter

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Dýralækni alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun var boðið á áhugaverðan fund sem var haldinn í London þann 12. febrúar s.l. Fundurinn var haldinn af breskum vinnuhópi sem var settur á laggirnar að tilstuðlan opinberra aðila árið 2009, en hans hlutverk var að finna leiðir til að lækka tíðni kampýlóbakter í kjúklingahópum og –afurðum. Eftir fjögurra ára starf hefur komið í ljós að aðgerðir hafa ekki borið þann árangur sem vænst var og hefur tíðni kampýlóbakter í afurðum ekkert lækkað þrátt fyrir aðgerðir. Árangur hér á landi til lækkunar kampýlóbaktersýkinga í fólki er þekkt víða um Evrópu og nú leita Bretar til Íslands til að læra íslensku aðferðina.

Í vinnuhópnum eru fulltrúar frá kjúklingaframleiðendum, sláturleyfishöfum og matvælafyrirtækjum. Í hópnum eru einnig sérfræðingar frá bresku matvælastofnuninni Food Standards Agency (FSA). Hlutverk hópsins er að sjá til þess að markmiðið sem Bretland settu sér um lækkun kampýlóbakter í kjúklingaafurðum undir tiltekin mörk verði náð. Til þess að ná þessu markmiði þarf að gripa til varnaraðgerða á öllum stigum framleiðslunnar. Unnið hefur verið náið með kjúklingabændum til að bæta smitvarnir á kjúklingabúum. Tilraunir með notkun efna á kjúklingaskrokkum eftir slátrun hafa verið gerðar til að freista þess að fækka fjölda kampýlóbaktersýkla á yfirborði skrokkanna. Auk þess voru skoðaðir möguleikar á að framleiða yngri kjúklingar og áhrif þess á neysluvenjur. Breskir neytendur eru vanir að kaupa mun stærri kjúklinga en tíðkast hérlendis og rannsóknir hafa sýnt fram á að tíðni kampýlóbakter í kjúklingum eykst með aldri fuglanna.

Eftir fjögurra ára vinnu og aðgerðir hefur Bretum ekki tekist að nálgast markmið sitt og er tíðni kampýlóbakter í kjúklingaafurðum jafnhá og fyrir fjórum árum síðan. Þess vegna var dýralækni alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun boðið að koma og lýsa aðgerðum sem gripið var til hérlendis sem skiluð því að kampýlóbaktersýkingar í fólki sem rekja má til neyslu kjúklinga er mjög lág samanborin við önnur lönd í hinum vestræna heimi. Sérstaklega fýsti Breta að heyra  hvernig það var hægt að fá stuðning frá neytendum og framleiðendum fyrir ströngum aðgerðum. Systurstofnanir Matvælastofnunar í nágrannalöndum okkar vita að eftir kampýlóbakterfaraldur í fólki á Íslandi árin 1998 og 1999 tókst að lækka tíðnina verulega, fyrst og fremst með góðum smitvörnum á alifuglabúum, á sama tíma og neysla fersks kjúklingakjöts margfaldaðist. 

Aðgerðir hér á landi voru samstarfsverkefni opinberra aðila og kjúklingaframleiðenda. Strax árið 2000 sammæltust aðilar um eina reglu: „að frysta alla kjúklinga, sem í finnst kampýlóbakter fyrir slátrun“. Tveimur árum síðar var þetta sett í reglugerð.  Enginn vissi á þessum tíma hvort yfirleitt væri hægt að koma í veg fyrir að kjúklingar smituðust á eldistíma þar sem kampýlóbakter finnst víða í umhverfinu. Framleiðendur stóðu hins vegar frammi fyrir  tveimur vondum kostum, annar var að fólk sýktist af afurðum þeirra og hinn að fólk hætti að kaupa ferska kjúklinga. Núna 12 árum síðar eru íslenskir kjúklingaframleiðendur í fremstu röð í heimi hvað varðar eldi á kampýlóbakterfríum kjúklingum, þeir hafa uppskorið erfiðið, neysla kjúklinga hér á landi er núna um 25 kg. á mann á ári, en var um 11 kg. þegar faraldurinn var árið 1999 og fólk sýkist afar sjaldan af afurðum þeirra. Þar sem eftirspurn er langmest eftir ófrosnu kjúklingakjöti er frystikrafa á kampýlóbakter mengaða kjúklingahópa fyrir slátrun  drifkrafturinn fyrir allar fyrirbyggjandi aðgerðir á kjúklingabúum. Kjúklingaframleiðendur leggja mikið á sig til að koma í veg fyrir að fuglinn smitist í eldi. Árið 2013 hefur einungis þurft að frysta 2% ársframleiðslunnar, og hefur aldrei áður mælst jafnlág tíðni.

Bretar leita leiða til að setja sambærilega pressu á breskar kjúklingabændur, en það reynist mjög erfitt innan sameiginlegs evrópsks markaðs. Að svo stöddu eru engar kröfur gerðar innan ESB um lækkandi tíðni kampýlóbakter í kjúklingaafurðum, það er talið að krafa um frystingu sé of íþyngjandi fyrir framleiðendur á sama tíma og kampýlóbakter er algengasta orsök matarsýkinga í fólki í Evrópu.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?