Fara í efni

Bráðalifrarbólga vegna neyslu á fæðubótarefni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur sent út viðvörun vegna hættu á bráðalifrabólgu eftir neyslu á fæðubótarefninu Oxy Elite Pro. Vitað er um fjölda sjúkdómstilfella í Bandaríkjunum sem talin eru tengjast vörunni og af þeim hafa tveir þurft að fá nýja lifur. Hægt er að rekja eitt dauðsfall til neyslu á vörunni. Fæðubótarefnið er notað af vaxtarræktarfólki en ólöglegt er að flytja það inn og/eða selja það hér á landi vegna óleyfilegra innihaldsefna. Þó hefur verið hægt að nálgast vöruna í gegnum netverslun og því varar Matvælastofnun neytendur við neyslu hennar. Við innflutningseftirlit hefur Matvælastofnun í allnokkrum tilfellum orðið vörunnar var og hefur innflutningur í þeim tilfellum verið stöðvaður.

Matvælastofnun fékk 1. nóvember þessar upplýsingar í gegnum INFOSAN sem er alþjóðlegt tengslanet sem sér um matvælaöryggi innan WHO (Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar).

  • Vöruheiti: Oxy Elite Pro
  • Framleiðandi: USP Labs LLC, Texas, BNA

Fæðubótarefni eru matvæli sem almennt eru í frjálsu flæði til landsins og því fyrst og fremst undir markaðseftirliti. Eftirlit með fæðubótarefnum á markaði er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Innflutningseftirlit er í höndum Matvælastofnunar og síðustu ár hefur innflutningseftirlit með fæðubótarefnum verið talsvert aukið.

Matvælastofnun beinir því til neytenda að vera varkárir þegar þeir kaupa fæðubótarefni á internetinu og leita sér nánari upplýsinga um vörur sem þeir kaupa og innihald þeirra.

Þá er því er beint til neytenda að hafa samband við viðkomandi heilbrigðiseftirlit eða Matvælastofnun hafi þeir upplýsingar um vöruna á innlendum markaði.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?