Fara í efni

Beiting þvingana og refsinga í dýravelferðarmálum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Með lögum um velferð dýra fékk Matvælastofnun rýmri heimildir til beitingar þvingana og stjórnvaldssekta í dýravelferðarmálum. Þvinganir geta verið í formi dagsekta, framkvæmd úrbóta á kostnað eiganda, takmörkun eða stöðvun starfsemi, vörslusvipting dýra og tímabundið bann við dýrahaldi. Framkvæmd vörslusviptinga var einfölduð og færð að öllu leyti til Matvælastofnunar, ásamt heimild til að kæra dýravelferðarmál til lögreglu.

Matvælastofnun birti á heimasíðu sinni seinni hluta ársins 2020 yfirlit yfir beitingu þvingana og refsinga í dýravelferðarmálum fyrir árin 2016-2020, sjá hér.

Frá ársbyrjun 2021 hefur Matvælastofnun beitt dagsektum í 21 máli, vörslusviptingu í sex málum, stjórnvaldssekt í níu málum og fimm málum hefur verið vísað til lögreglu. Dagsektir, framkvæmdir á kostnað eiganda, vörslusviptingar dýra og stöðvun starfsemi eru úrræði til að þvinga fram úrbætur þegar umráðamenn dýra bregðast ekki við tilmælum stofnunarinnar innan gefins frests. Þá getur Matvælastofnun beitt stjórnvaldssektum eða kært mál til lögreglu vegna refsiverðra brota á dýrum þegar brotin eru talin fullframin. Kærur til lögreglu og boðaðar vörslusviptingar varða gæludýr og búfé, sauðfé, nautgripi og hross meðan dagsektum hefur að mestu verið beitt þegar brotið snúa að aðbúnaði og meðferð búfjár.

Þvinganir

Þegar dagsektir eru lagðar á fær umráðamaður dýra almennt fimm daga til að bæta úr. Ef það er ekki gert hefst álagning dagsekta. Matvælastofnun hefur á fyrrnefndu tímabili boðað fyrirhugaðar dagsektir í tuttugu og einu máli vegna aðbúnaðar og umhirðu dýra. Í fjórtán tilfella leiddu boðaðar dagsektir til þess að úrbætur voru gerðir innan fimm daga og voru dagsektir því ekki lagðar á. Í fimm tilfella lauk úrbótum umráðamanna eftir að dagsektir voru lagðar á. Í tveimur tilvika voru dagsektir stöðvaðar og öðrum þvingunum beitt, s.s. úrbætur á kostnað umráðamanns og vörslusvipting. Flest tilvikin sneru að velferðarmálum varðandi nautgripi, einnig voru boðaðar dagsektir vegna hrossa og sauðfjár. Dagsektir hafa reynst skilvirkt úrræði til að ná fram úrbótum í dýravelferð.

Ef brot á velferð dýra er metið alvarlegt og umráðamaður bregst ekki við kröfum um úrbætur, eða málið þolir ekki bið, eru dýr tekin úr umsjá umráðamanna með vörslusviptingu. Á fyrrnefndu tímabili lauk Matvælastofnun máli með því að boða fyrirhugaða vörslusviptingu í sex málum. Af þeim komu tvær vörslusviptingar til framkvæmda en í fjórum tilfellum var fallið frá fyrirhugaðri vörslusviptingu þar sem umráðamaður gerði strax úrbætur samkvæmt kröfum stofnunarinnar eða úrbætur voru unnar á kostnað umráðamanns. Hlutfallslega kemur þvingun því mun oftar til framkvæmda í alvarlegri málum þar sem vörslusviptingum er beitt en í minna alvarlegum málum þar sem dagsektum er beitt. Reynslan hefur sýnt að frá því að stjórnsýslan í kringum vörslusviptingar var einfölduð og færð til Matvælastofnunar hefur vinnsla slíkra mála einfaldast til muna. Flestar vörslusviptingar voru boðaðar vegna vanbúnaðar hjá gæludýrum, en einnig vegna hrossa, nautgripa og sauðfjár.

Refsingar

Þegar brot á dýrum gefa tilefni til beitingar refsiviðurlaga hefur Matvælastofnun heimild til að beita stjórnvaldssektum skv. 42. grein laganna. Ef mál þarfnast frekari rannsóknar eða brot eru meiriháttar hefur Matvælastofnun vísað þeim til lögreglu. Aldrei er kært til lögreglu og beitt stjórnvaldssekt í sama máli. Sektarupphæð stjórnvaldssekta getur numið frá 10.000 kr. til að hámarki 1.000.000 kr. Stofnuninni er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti en að hámarki 5.000.000 kr. Sektarupphæð er m.a. metin út frá alvarleika brots, hve lengi það varði og hvort um ítrekað brot sé að ræða.

Ábendingar mikilvægar

Mörg þessara mála fékk Matvælastofnun vitneskju um út frá ábendingum frá almenningi. Öll þau sem hafa grun um illa meðferð dýra eru hvött til að senda stofnuninni ábendingu. Hægt er að senda ábendingar nafnlausar en þá getur verið erfitt að afla nauðsynlegra upplýsinga.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?