Fara í efni

Bann við notkun stangaméla með tunguboga skilar árangri

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Árið 2014 var bann lagt við notkun stangaméla með tunguboga í keppni hér á landi. Þá höfðu verið birtar niðurstöður rannsóknar frá landsmóti hestamanna og Íslandsmóti árið 2012 sem sýndu háa tíðni þrýstingsáverka í munni keppnishesta. Fram kom að yfir 50% hesta í úrslitum einstakra greina höfðu alvarlega áverka á kjálkabeini þar sem notkun stangaméla með tunguboga reyndist afgerandi áhættuþáttur. Bannið var seinna sama ár fest í reglugerð um velferð hesta og nær einnig til sýninga á kynbótahrossum.

Matvælastofnun hefur eftirlit með velferð hesta á stórmótum samkvæmt fyrirkomulaginu “Klár í keppni” sem m.a. felur í sér skoðun á fremsta hluta munns hestanna þar sem líklegast er að finna þrýstingsáverka frá mélum. 

Við samanburð á gögnum frá landsmótum hestamanna (LM) á árunum 2012 – 2018 má sjá að tíðni þrýstingsáverka á kjálkabeini (sem teljast alvarlegri en áverkar í munnvikum og kinnum) hefur minnkað mikið eftir að bann var lagt við notkun stangaméla með tunguboga. Meðfylgjandi mynd sýnir niðurstöður skoðana eftir forkeppni gæðingakeppninnar í fullorðinsflokkum (A-fl, B-fl og ungmennafl.). Þar kemur fram að tíðni áverka á kjálkabeini hefur lækkað úr 15% í 4%. Nær engin dæmi eru lengur um mjög alvarlega áverka, svo sem beinhimnubólgu og sár á kjálkabeini, þannig að vísa verði hrossum frá sýningu eða keppni. Út frá sjónarmiði dýravelferðar er það mikilvægur áfangi.

Það er áhyggjuefni að heildartíðni þrýstingsáverka er ennþá mjög há hjá keppnishestum. Þær tölur endurspegla þrýstinginn sem knapar setja á munn hestanna og þar með reiðmennskuna að einhverju leyti. Áhugavert er að niðurstöðurnar eru breytilegar milli landsmóta. Best var útkoman árið 2014 sem sýnir að knapar náðu að draga umtalsvert úr þrýstingi á munn hestsins það ár, líklega í kjölfar mikillar umræðu og vilja til að gera betur á þeim tíma. 

Þrátt fyrir umtalsverða breytingu til batnaðar á velferð keppnishrossa er ennþá verk að vinna. Það blasir við að keppnisgreinar íslenska hestsins þurfa að verða hestvænni og sú áhersla þarf að endurspeglast í dómsskalanum með skýrari hætti en nú er. 

Myndin sýnir þróun á tíðni (%) þrýstingsáverka í munni eftir forkeppni á LM2012-2018
Blár: Tíðni vægra þrýstingsáverka, oftast í munvikum og kinnum
Grænn: Tíðni alvarlegri þrýstingsáverka á kjálkabeini

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?