Fara í efni

Aukið matvælaöryggi á Íslandi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Samstarfsverkefni íslenskra og þýskra stjórnvalda um aukið öryggi matvæla lokið. Matvælaöryggi er lykilforsenda þess að matvælaframleiðendur geti selt sína vöru og tekið þátt í alþjóðaviðskiptum. Neytendur, innlendir sem erlendir, verða að geta treyst því að matvæli séu örugg og að stjórnvöld hafi getu til að fylgjast með því að matvælaöryggis sé gætt í samræmi við alþjóðlega staðla og reglugerðir.

Tvíhliða samstarfsverkefni Þýskalands og Íslands, Örugg matvæli, sem stuðlað hefur að auknu matvælaöryggi á Íslandi er nú lokið, en helstu þátttakendur verkefnisins voru Matís, Matvælastofnun (MAST), Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, German Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

Safe Food
Dr. Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís, dr. Roland Gerhard Körber,starfsmaður Safe Food verkefnisins, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dr. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, Thomas Hermann Meister,  sendiherra Þýskalands á Íslandi, dr. dr. Andreas Hensel, forseti BfR, dr. Eberhard Haunhors, forstjóri Laves og Margrét Björk Sigurðardóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun.

 
"Markmið okkar var byggja upp stjórnsýsluna og bæta rannsóknaaðstöðu á Íslandi þannig að allir nauðsynlegir innviðir séu til staðar til að tryggja öryggi matvæla á íslenskum markaði. Þetta er gert til að vernda heilsu og hagsmuni neytenda á sífellt stækkandi mörkuðum á tímum aukinnar alþjóðavæðingar" sagði prófessor Dr. Dr. Andreas Hensel, forseti BfR, og undir það tók prófessor Dr. Eberhard Haunhorst, forseti LAVES á fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þann 25. júní 2014. "Samstarfsverkefnið Örugg matvæli hefur stuðlað að verulegri eflingu á rannsóknargetu Íslands, sem mun gera okkur kleift að vinna í samræmi við evrópska staðla og reglugerðir. Þessi vinna mun auðvelda útflutning á íslenskum matvælum á alþjóðamarkaði." sagði Sveinn Margeirsson forstjóri Matís. "Þökk sé nánu samstarfi milli íslenskra yfirvalda og þýskra samstarfsaðila, hafa opinberir eftirlitsaðilar aukið þekkingu sína á löggjöf, stjórnsýslu og verklagi við opinbert matvælaeftirlit þannig að við erum nú betur í stakk búin til að tryggja hagsmuni neytenda með tilliti til matvælaöryggis", bætti forstjóri Matvælastofnunar Jón Gíslason við.

Helstu forgangsatriði verkefnisins voru að bæta greiningu varnarefnaleifa og annarra aðskotaefna í matvælum, svo sem PCB, auk greininga á erfðabreytingum í matvælum og fóðri. Annar mikilvægur þáttur var að innleiða efnagreiningaraðferðir til að mæla þörungaeitur í skelfiski. Til að ná þessum markmiðum voru keypt fyrsta flokks rannsóknartæki og sett upp á rannsóknarstofu Matís ásamt því að viðkomandi starfsfólk var þjálfað í notkun tækjanna og framkvæmd á opinberum greiningaraðferðum samkvæmt Evrópskum stöðlum. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fengu einnig þjálfun í sýnatökum, eftirliti og túlkun löggjafar á þessum sviðum. Samtals komu hingað til lands 24 sérfræðingar frá þýsku samstarfsstofnununum til að veita þessa þjálfun auk þess sem íslenskir sérfræðingar munu fara í kynnisheimsókn til Þýskalands.

Verkefnið þykir hafa tekist afar vel og er verið að ræða hugsanlegt framhald á því samstarfi sem komið er á milli íslenskra og þýskra stofnana á sviði matvælaöryggis


Getum við bætt efni síðunnar?