Ársuppgjör 2018 - ullarinnlegg 2018 í ársuppgjöri
Ársuppgjör stuðningsgreiðslna í sauðfjárrækt vegna ársins 2018 (skattár 2019) verður birt á Bændatorginu í dag. Ársuppgjör fyrir stuðningsgreiðslur í nautgriparækt var tilbúið 2.febrúar sl., ársuppgjör í grænmetinu klárast fyrir mánaðarmót og sama á við um ársuppgjör í fjárfestingarstuðningi í sauðfjár- og nautgriparækt, en þar er verið að vinna úr lokaskýrslum frá umsækjendum. Ný ársáætlun um heildarframlög til sauðfjárbænda vegna ársins 2019 verður síðan birt í næstu viku sem stuðningsgreiðslur sem greiddar verða í mars byggjast á.
Búnaðarstofa Matvælastofnunar vill ítreka að allt ullarinnlegg sem skráð var í kerfi Ístex á Bændatorginu á almanaksárinu 2018, og Ístex hefur yfirfarið (Yfirfarið af Ístex), er reiknað inn í ársuppgjörið í ull vegna síðastliðins árs. Kveðið er á um þetta í reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt. Þeir sem skráðu ullarinnleggið eftir áramót, sem sagt á þessu ári, fá þá ull ekki reiknaða inn í uppgjör á beingreiðslum í ull á árinu 2018. Ársáætlun fyrir árið 2019 byggir á ullarinnleggi sem kom fram í uppgjöri ársins 2018. Bændum er bent á að ef ullarinnlegg er ekki skráð fyrr en eftir áramótin að hægt er að leggja inn rafræna athugasemd við ársáætlun um heildarframlög vegna ársins 2019 og óska eftir leiðréttingu á henni.
Hægt er að nálgast skattyfirlit hér á Bændatorginu undir rafræn skjöl en þá er mikilvægt að ársuppgjör allra stuðningsgreiðslna liggi fyrir.