Alvarlegt brot á dýravelferð. Dómur fallinn
Frétt -
20.03.2024
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Í desember 2022 kærði Matvælastofnun bónda á Austurlandi til lögreglu fyrir að hafa vanrækt að fóðra nautgripi sína þannig að 7 þeirra drápust og lágu dauðir og afskiptalausir í útihúsum í nokkurn tíma. Var bóndinn ákærður í framhaldi af kærunni.
Í nýlegum dómi héraðsdóms Austurlands kemur fram að brot bóndans teldist stórfellt og þótti refsing hans hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið. Jafnframt var dæmt að bóndanum væri óheimilt í næstu fimm ár að hafa nautgripi í umsjá sinni, versla með þá eða sýsla með þá með öðrum hætti. Fyrir liggur að bóndinn unir dómnum og er hann því endanlegur.