Fara í efni

Ákvörðun um synjun frekari greiðslna staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur með úrskurði þann 23. nóvember 2015 staðfest ákvörðun Matvælastofnunar frá 7. janúar 2015 að synja beiðni um áframhaldandi greiðslur án framleiðslu á sauðfjárbýli í Vesturumdæmi. Vegna utanaðkomandi mengunar bannaði Matvælastofnun sölu afurða frá býlinu í apríl 2011. Eftir að niðurstöður beitartilraunar sem farið var í lágu fyrir var öllum takmörkunum um beit og nýtingu fóðurs aflétt tæpu ári síðar eða í janúar 2012.

Í ljósi aðstæðna sem upp höfðu komið felldi bóndinn allan bústofn býlisins og óskaði eftir að Matvælastofnun heimilaði beingreiðslur og aðrar stuðningsgreiðslur til býlisins án framleiðslu.

Með vísan til heimildar í bráðabirgðaákvæði W og X í búvörulögum nr. 99/1993 heimilaði Matvælastofnun að greiddar yrðu beingreiðslur og aðrar stuðningsgreiðslur án framleiðslu út árið 2014 þar sem bann við sölu afurða var vegna aðstæðna sem viðkomandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á. 

Beiðni um áframhaldandi greiðslur synjaði Matvælastofnun í byrjun árs 2015 þar sem það svigrúm sem veitt hafði verið til að koma búskap að nýju í fyrra horf var til enda runnið. Ákvörðun Matvælastofnunar var kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í mars 2015 og hefur ráðuneytið nú staðfest ákvörðun stofnunarinnar um að synja um frekari greiðslur án framleiðslu. 

Í úrskurði sínum telur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að kæranda hafi verið veitt rúmt svigrúm til að koma búskap í fyrra horf, enda eigi ákvæði til bráðabirgða eingöngu við þegar um er að ræða bann við afurðasölu frá búinu. Banni við sölu afurða hafi verið aflétt fyrir búfé, bæði sauðfé og nautgripi. Því var ákvörðun Matvælastofnunar um synjun frekari greiðslna staðfest. 


Getum við bætt efni síðunnar?