Fara í efni

Áhrif fuglaflensu á súlur 2022

Vísindamenn á vegum bresku samtakanna RSPB, birtu nýlega grein um rannsókn á áhrifum skæðrar fuglaflensu á súlur. Fjölmargir aðrir vísindamenn komu að rannsókninni, þar á meðal íslenskir. Mikilla áhrifa fuglaflensunnar á súlur varð fyrst vart á Íslandi í fyrra og fljótlega eftir það líka í öðrum löndum við Norður-Atlantshaf. Í stærstu súlubyggð í heimi, á Bass Rock í Skotlandi, minnkaði varpárangur um meira en helming og hátt í helmingi færri fullorðnir fuglar lifðu af milli ára. Mótefnamælingar sýndu að sumar súlur lifðu sýkinguna af og í ljós kom að lithimna augnanna í mörgum þeirra hafði dökknað og var í sumum tilfellum alveg svört.

Í fuglaflensufaraldrinum á síðasta ári lagðist sjúkdómurinn sérstaklega illa á súlur, en einnig á aðrar tegundir villtra fugla, m.a. skúma. Fyrst varð vart við áberandi mikinn dauða í súlum hér á landi snemma vors 2022 og skæð fuglaflensa var staðfest í þeim í apríl það ár. Mikið var um tilkynningar til Matvælastofnunar um veikar og dauðar súlur allt frá apríl fram á haust. Í maí var óvenju mikill dauði á mörgum varpstöðum súlna í Skotlandi og í kjölfar þess á fleiri stöðum við Norður- Atlantshaf, m.a. í Noregi, Þýskalandi og Kanada. Sjúkdómshrinunni í súlnabyggðunum lauk í september.

Breskir vísindamenn í samvinnu við stóran alþjóðahóp sérfræðinga rannsökuðu útbreiðslu sjúkdómshrinanna við Norður-Atlantshaf. Í ljós kom að óvenju mikill dauði var í 40 af 41 byggð sem skoðaðar voru en engin breyting í einni. Sýni voru tekin úr súlum frá 41 byggð og greindust skæðar fuglaflensuveirur (H5N1) í 24 byggðum. Í stærstu súlubyggð í heim, á Bass Rock í Skotlandi, var árangur útungunar 66% minni en langtímameðaltal í Bretlandi. Einnig kom í ljós að 42% færri fullorðnar súlur lifðu af milli 2021 og 2022 samanborið við meðaltal undanfarinna tíu ára.

Athyglisvert var að fuglaflensumótefni (H5) greindust í sjáanlega heilbrigðum súlum, sem bendir til að þessir fuglar hafi lifað sýkinguna af. Í flestum þeirra reyndist lithimna augnanna vera svört í stað ljósblárrar sem eðlilegt er. Ekki er vitað hvað veldur þessari breytingu né hvort hún hafi áhrif á fuglana. Þetta kallar á frekari rannsóknir. Jafnframt þarf að rannsaka frekar áhrif vægra afbrigða af fuglaflensuveirum á mótstöðu fuglanna gegn skæðum afbrigðum.

Þessar rannsóknir sýna að skæð fuglaflensa er ný ógn sem steðjar að sjófuglum sem þegar eiga undir högg að sækja af öðrum ástæðum. Til að geta þróað árangursríkar aðferðir til verndar fuglunum, er afar mikilvægt að skilja áhrif fuglaflensunnar og samspil hennar og annarra þátta sem áhrif hafa á afkomu þeirra.

(Mynd sem fylgir þessari frétt er birt með leyfi Jude Lane hjá RSPB, sem er fyrsti höfundur þeirrar greinar sem fjallað er um í fréttinni).


Getum við bætt efni síðunnar?