Fara í efni

Áhættumiðað eftirlit á sveitabæjum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Með nýjum lögum um búfjárhald sem tóku gildi um áramótin fluttust verkefni búfjáreftirlitsmanna til Matvælastofnunar. Sex nýir starfsmenn munu sinna eftirliti sem áður var unnið af tæplega 40 búfjáreftirlitsmönnum en áætluð stöðugildi þeirra voru 10 – 12. Ekki verður farið í eftirlit á hvern bæ eins og tíðkast hefur og mun Matvælastofnun beina eftirlitinu þangað sem mest er þörfin, með tilliti til velferðar dýra og matvælaöryggis, þ.e. áhættumiðað eftirlit. Á árinu mun stofnunin vinna að áhættuflokkun í alifugla-, svína, nautgripa-, sauðfjár-, hrossa og loðdýrahaldi og byggja eftirlitið frá árinu 2015 á þeirri flokkun.

Á þessu ári verður að beita annarri nálgun til að ákveða hvar mesta þörfin er á eftirliti. Tekið verður mið af þekktri sögu búskapar á viðkomandi bæ, svo sem niðurstöðum skoðunar búfjáreftirlitsmanna, niðurstöðum úr heilbrigðisskoðunum í sláturhúsum, fyrri afskiptum stofnunarinnar o.s.frv. Auk þess mun stofnunin afla upplýsinga hjá þeim sem starfa sinna vegna hafa skyldur til að tilkynna um illa meðferð á dýrum, sbr. lög um velferð dýra, en þar segir m.a. „Sérstaklega er dýralæknum og heilbrigðisstarfsmönnum dýra skylt að fylgjast með meðferð dýra, aðbúnaði dýra, aðgerðum og meðhöndlun dýra, dýrahaldi, aðferðum við dýrahald og útbúnaði dýra eftir því sem við verður komið og gera Matvælastofnun viðvart ef ætla má að aðstæður dýrs séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 8.gr.  Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.“

Slembiúrtak og umbun

Auk þekktrar sögu tiltekinna bæja mun stofnunin framkvæma eftirlit 2014 á grundvelli slembiúrtaks. Allir geta því átt von á eftirliti. Allir sem fá eftirlit þurfa að greiða fyrir framkvæmd þess. Því kann það að hljóma óréttlátt að bændur sem lenda í slembiúrtaki 2014 þurfi að greiða en ekki hinir sem „sleppa“ við eftirlit á árinu. Því er til að svara að það mun jafnast út næstu árin, ef búskapurinn reynist standast lög og reglur þá fær viðkomandi ekki eftirlit fyrr en að einhverjum árum liðnum. Þetta er kallað „frammistöðuflokkun“ sem er hluti af áhættuflokkuninni. Þeir sem eru með „fyrirmyndar búskap“ munu fá helmingi minna eftirlit  en meðal bú er talið þurfa skv. áhættuflokkun en  „búskussarnir“ fá helmingi meira eftirlit. Þannig fá fyrirmyndar bændur fjárhagslega umbun næstu árin (sleppa við eftirlit)  og eftirlitinu verður meira beint að þeim sem ekki standa sig. Það er því til nokkurs að vinna að vera til fyrirmyndar, ferfætlingum og tvífætlingum líður betur á fyrirmyndar búum og slík bú ættu að geta markað sér betri stöðu á markaði með sínar afurðir.

Eftirlit felst í því að ganga úr skugga um að viðkomandi búskapur uppfylli þá löggjöf sem gildir um starfsemina. Mikilvægt er að bændur  þekki skyldur sínar og áríðandi að hagsmunasamtök þeirra stuðli að aukinni þekkingu í sérhverri búgrein. Í gegnum árin hefur eftirlitsmaðurinn (héraðsdýralæknir eða búfjáreftirlitsmaður) verið hálfgerður ráðgjafi bænda um leið og hann framkvæmdi eftirlitið. Nú er þetta óheimilt, en eftirlitsmanni er þó heimilt að fræða og leiðbeina á almennan hátt. Ráðgjöf sækja bændur til sinna dýralækna og/eða Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins.

Tvær skýrslur og andmælaréttur

Niðurstöður eftirlits Matvælastofnunar eru færðar í gagnagrunn og kveður vinnuregla á um að skoðunarskýrslur séu sendar (t-póstur) bændum innan við viku frá því eftirlit var framkvæmt. Skoðunarskýrslur í frumframleiðslu eru tvær, annars vegar skýrsla vegna framleiðslu matvæla og fóðurs og hins vegar skýrsla vegna dýraheilbrigðis og velferðar. Ástæðan fyrir aðskildum skýrslum er aðgreining milli þeirrar löggjafar sem liggur til grundvallar. Bændur fá sem sagt tvær skýrslur og er veittur tveggja vikna frestur til að andmæla innihaldi þeirra og kröfum sem þar kunna að vera settar fram um úrbætur. Þetta er gert til að uppfylla ákvæði stjórnsýslulaga um að þegnum sé gert kleift að tjá sig áður en stjórnvald tekur ákvörðun. Ákvörðun Matvælastofnunar (kröfur um úrbætur) kemur síðan fram í endanlegum skoðunarskýrslum sem sendar eru bændum að tveimur vikum liðnum.

Við eftirlit eru tiltekin atriði skoðuð og metið hvort þau uppfylla ákvæði laga og reglugerða. Ef svo reynist ekki vera þá metur eftirlitsmaður hversu alvarlegt atvikið er og gefur því einkunnina „frávik“ eða „alvarlegt frávik“. Í grófum dráttum má segja að alvarlegt frávik þýði að málinu verði fylgt fast eftir og endar með stöðvun starfseminnar eða að dýr verði fjarlægð verði ekki brugðist við með fullnægjandi úrbótum. Frávikum er einnig fylgt eftir en úrbótum er gefinn meiri tími og afleiðingar eru ekki eins alvarlegar.

Undanfarin misseri hefur ofangreindu fyrirkomulagi verið beitt í eftirliti hjá öllum matvælaframleiðendum og nautgripabændum en öðrum bændum verður þetta framandi. Öll erum við að feta okkur áfram í nýju umhverfi opinbers eftirlits, nýtt fólk og nýtt verklag sem krefst þolinmæði og tillitssemi. Vonandi slípast þetta í framtíðinni á þann veg að allir geti vel við unað, matvælaöryggi og velferð dýra til framdráttar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?