Fara í efni

Afrísk svínapest - smithætta fylgir veiðiferðum erlendis

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þeir sem fara til Evrópu eða annarra heimshluta á villisvínaveiðar þurfa að gæta ýtrustu smitvarna til að koma í veg fyrir að bera afríska svínapest milli landa. Pestin er í hraðri útbreiðslu og mikil ógn stafar af henni fyrir svínarækt í heiminum. Smit getur borist með matvælum, fatnaði og ýmsum tækjum og tólum.

Veiran sem veldur afrískri svínapest getur m.a. borist með sýktum svínum og sæði, hráu kjöti af sýktum dýrum, farartækjum, búnaði, fatnaði o.fl. Veiðimenn eru meðal þeirra sem þurfa sérstaklega að gæta sín á að dreifa ekki veirunni.

Afrísk svínapest er bráðsmitandi drepsótt í svínum og hefur dreifst með villtum svínum um Asíu, Afríku og Evrópu. Ekki er til nein meðhöndlun við sjúkdómnum og ekki er hægt að verjast honum með bólusetningum. Veiran sem veldur sjúkdómnum er ekki hættuleg fyrir fólk eða önnur dýr en veldur svínum þjáningum og dauða. Tjón fyrir landbúnað þar sem sjúkdómurinn kemur upp er gífurlegt.

Tilmæli til þeirra sem fara á villisvínaveiðar eru:

  • Kynnið ykkur vel þær smitvarnareglur sem gilda í veiðilandinu.
  • Þrífið og sótthreinsið tæki og skó áður en veiðilandið er yfirgefið.
  • Þvoið notaðan fatnað í veiðilandinu. Sé það ekki mögulegt skal setja hann í poka og þvo í þvottavél án tafar þegar heim er komið eða fara með í hreinsun.
  • Farið ekki á svínabú að nauðsynjalausu, hvorki innanlands né erlendis.
  • Kynnið ykkur vel þær reglur sem gilda um innflutning á kjöti og veiðiminjar. Þær má finna á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is.

Tilmæli til svínabænda eru:

  • Hafið stranga stjórn á aðgangi og umgangi gesta og starfsfólks á búinu.
  • Fóðrið ekki svín með matarúrgangi.
  • Þrífið og sótthreinsið öll tæki og tól sem farið er með inn á búið.

Afrísk svínapest og veiðiferðir erlendis

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?