Aðgerðir gegn riðu í Austur-Húnavatnssýslu
Eins og fram kom í frétt 10. janúar sl. á vef Matvælastofnunar greindist riða í skimunarsýni í sláturhúsi úr kind frá bænum Eiðsstöðum í Blöndudal, A-Hún, í Húna- og Skagahólfi. Búrekstur á Eiðsstöðum er sameiginlegur með nágrannabænum Guðlaugsstöðum, því er féð á báðum bæjum ein hjörð með tilliti til smitvarna. Komið hefur í ljós að smit var í fé frá báðum bæjum.
Af praktískum ástæðum fór niðurskurður fram í tvennu lagi. Annars vegar 22. febrúar og hins vegar 7. mars sl. og er niðurskurði nú lokið.
Í samræmi við breytingareglugerð nr. 1152/2023 við reglugerð nr. 651/2001 um riðuveiki og útrýmingu hennar, var bændum boðið upp á að láta arfgerðagreina hjörðina með það fyrir augum að opna fyrir möguleikann á hlutaniðurskurði ef eitthvað af kindum fyndist í hjörðinni með verndandi (V) eða mögulega verndandi arfgerðir (MV). Arfgerðargeiningarnar leiddu í ljós að eitthvað er af fé í hjörðinni með verndandi (V) og mögulega verndandi (MV) arfgerðir.
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var fengin til að útbúa ræktunaráætlun fyrir hjörðina og mögulegar sviðsmyndir skoðaðar áður en tekin var ákvörðun í samráði við bændurna um hlutaniðurskurð. Í framhaldi af því var það fé sem ber V eða MV undanskilið niðurskurði.
Ákveðin skilyrði eru sett varðandi það fé sem eftir er á bænum og varðandi uppbyggingu hjarðarinnar. Þau helstu eru:
- Kindur sem ekki verða skornar niður og þær sem við hjörðina kunna að bætast ber að einangra og halda innan fjárheldra girðinga á bænum í allt að sjö ár frá niðurskurði, enda greinist hefðbundin riða ekki á því tímabili. Matvælastofnun er þó heimilt að leyfa að kindurnar séu haldnar í einangrun annars staðar.
- Skylt verður að rækta upp hjörðina með það að markmiði að hún verði ónæm fyrir riðu, enda verði allt ásetningsfé arfgerðagreint sé arfgerð ekki þekkt. Sé 75% hluti hjarðarinnar ARR/ARR og restin ARR/MV er Matvælastofnun heimilt að aflétta einangrun en þó aldrei fyrr en að liðnum tveimur árum frá niðurskurði.
- Við ræktun skal eingöngu nota ARR/ARR hrúta á meðan takmarkanir gilda, auk hrúta sem bera MV/MV arfgerðir. Aðeins árið 2024 er í undantekningatilvikum heimilt að nota eigin ARR/x hrúta (x má ekki vera VRQ). Lömbum sem ekki bera ARR eða MV ber að slátra.
- Aðkeyptir hrútar skulu vera ARR/ARR, en heimilt er að kaupa að lambgimbrar sem bera ARR/x (x má ekki vera VRQ).
- Framvísa þarf til Matvælastofnunar öllu fé 18 mánaða og eldra sem drepst eða er aflífað á bænum og úr því skal taka heila- og eitlasýni. Jafnframt ber að upplýsa Matvælastofnun um vanhöld úr heimahögum eða af afrétti.
- Matvælastofnun er heimilt að leyfa flutning ARR/ARR hrúta frá bænum á aðra bæi innan varnarhólfs þar sem ekki er fé með næmar arfgerðir, þó ekki fyrr en að tveimur árum liðnum frá niðurskurði.
- Fé sem ber ARR/x og lömbum 3ja mánaða og yngri er heimilt að slátra án takmarkana.
- Fé sem ekki ber ARR og er eldra en 3ja mánaða er heimilt að senda til slátrunar að því tilskyldu að tekin séu heila- og eitlasýni og beðið niðurstöðu greininga áður en dreifing afurða yrði leyfð.
- Ásetningsfé sem ekki er ARR/ARR eða ARR/MV skal sérstaklega litamerkt (rauð merki), skv. 5.gr. reglugerðar nr. 651/2001.
- Á sjö ára takmörkunartímanum og á meðan enn er fé í hjörðinni í einangrun, er heimilt að setja á afrétt fé með ARR/ARR eða ARR/MV arfgerðir, en þó ekki fyrr en að tveimur árum liðnum frá niðurskurði.
Upplýsingafundur um riðu verður haldinn þriðjudaginn 12. mars n.k. kl 20:00 í BHS-salnum að Húnabraut 13, Blönduósi. Fulltrúar MAST og RML hafa framsögu og svara spurningum. Fundurinn er öllum opinn.