Fara í efni

Viðbragðsæfingin BÍÓ 2019

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í aprílmánuði síðastliðnum hélt Matvælastofnun æfingu í viðbrögðum við alvarlegum dýrasjúkdómum. Tilgangur hennar var að þjálfa þátttakendur í að taka ákvarðanir um ráðstafanir til að hindra smitdreifingu ef upp kemur bráðsmitandi sjúkdómur í klaufdýrum. Nú hefur verið gefin út skýrsla um framkvæmd og niðurstöður æfingarinnar.

Æfingin, sem fékk heitið BÍÓ 2019, var haldin í fimm af sex umdæmum Matvælastofnunar. Tilgangur hennar var að þjálfa starfsfólk MAST og sjálfstætt starfandi dýralækna í að taka ákvarðanir um smitvarnaráðstafanir þegar upp kemur grunur um alvarlegan bráðsmitandi dýrasjúkdóm eins og til dæmis gin- og klaufaveiki. Dagskráin var eins á öllum stöðum en sviðsmyndirnar mismunandi og tóku mið af raunverulegum aðstæðum á hverjum stað. 

Á æfingunni var unnið út frá því að grunur vaknaði um gin- og klaufaveiki í nautgripum. Það er alvarlegur, bráðsmitandi sjúkdómur í klaufdýrum sem mikil áhersla er lögð á, um allan heim, að hindra að breiðist út. Smitefnið er harðger veira sem getur borist með fólki, matvælum, ýmsum varningi og jafnvel um langan veg með ögnum í lofti. Sjúkdómurinn veldur dýrunum miklum þjáningum og fjárhagslegt tjón vegna hans getur orðið gífurlegt.

Æfingin stóð yfir í einn dag á hverjum stað. Eftir almenna umfjöllun um smitvarnir í upphafi, var verkleg æfing í hvernig gæta skuli smitvarna við komu og brottför af búi þar sem grunur er um gin- og klaufaveiki. Svo tók við skrifborðsæfing þar sem þátttakendur fengu sviðsmynd með lýsingu á búi þar sem grunur var um gin- og klaufaveiki og margvísleg verkefni varðandi ákvarðanatöku um smitvarnaráðstafanir. Í lok dags komu allir saman til að ræða um verkefnin og síðan var gefinn tími til endurmats. Nokkrum dögum eftir æfinguna voru haldnir endurmatsfundir á Skype. Almennt var ánægja með æfinguna og þátttakendur kölluðu eftir tíðari æfingum. Margar góðar ábendingar komu fram um efni og framkvæmd næstu æfinga.

Á æfingunni og við undirbúning hennar kom í ljós þörf fyrir ýmis konar uppfærslu á viðbragðsáætlun Matvælastofnunar vegna dýrasjúkdóma og gerð leiðbeiningaskjala, sem og kynningu á áætluninni og þeim skjölum sem hún hefur að geyma.

VÁ-teymi Matvælastofnunar sem sá um þessa æfingu mun á næstu mánuðum vinna að úrbótum á viðbragðsáætlun vegna dýrasjúkdóma og kynningu á henni, ásamt undirbúningi fyrir næstu æfingu sem fyrirhugað er að halda í nóvember á þessu ári. 

Skýrslu um æfinguna má finna hér að neðan.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?