Kampýlóbaktersýkingar í fólki
Á síðasta ári greindust um 100 einstaklingar hér á landi með kampýlóbaktersýkingu en á undanförnum árum hafa um 50-120 einstaklingar greinst með sýkinguna árlega.
Þeir einstaklingarnir sem nú hafa verið að greinast eru frá mismunandi stöðum landsins og ekki að finna hjá þeim sameiginlega uppsprettu sýkingarinnar.
Kampýlóbakter er algeng baktería um allan heim og smitar bæði menn og dýr. Bakterían smitast yfirleitt með menguðum matvælum, en smit með vatni er einnig vel þekkt. Meðgöngutími sýkingarinnar, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart, er yfirleitt 2-4 dagar en getur verið 1-7 sólarhringar. Einkenni geta verið lítil en oft veldur sýkingin miklum niðurgangi sem getur verið blóðugur, ógleði, uppköstum, krampakenndum kviðverkjum og hita. Veikindin ganga yfirleitt yfir án meðferðar á nokkrum dögum en stöku sinnum þarf að beita sýklalyfjameðferð.
Fólk er beðið um gæta almenns hreinlætis, sérstaklega við matreiðslu á viðkvæmum matvælum, gæta þess að möguleg smitefni berist ekki úr hráum matvælum svo sem úr kjöti í soðin/steikt matvæli eða salöt, gæta vel að fullnægjandi hitun matvæla t.d. við grillun og góðri kælingu á geymdum mat. Einnig þarf að gæta þess að neyta einungis hreins og ómengaðs vatns.
Nánari upplýsingar um kampýlobaktersýkingar má finna á heimasíðu embættis Landlæknis og Matvælastofnunar
Sóttvarnalæknir / Matvælastofnun
Ítarefni
Upplýsingar um kampýlóbakter á heimasíðu Matvælastofnunar og heimasíðu Landlæknis