• Email
  • Prenta

Campylobacter

Kampýlóbaktersýkingum í mönnum fjölgaði verulega allt að árið 1999, einkum vegna neyslu ferskra kjúklingaafurða. Í byrjun árs 2000 var sett á laggirnar eftirlitsáætlun með kampýlóbakter í kjúklingaeldi. Tilgangurinn með henni var að beita markvissum aðgerðum til að draga úr kampýlóbaktermengun í kjúklingaafurðum og þannig fækka sýkingum í mönnum.

Sýnatökur samkvæmt eftirlitsáætlunin fara fram í eldinu 2-5 dögum fyrir slátrun og síðan eru slátursýni rannsökuð úr öllum kjúklingasláturhópum. Slátursýni eru botnlangasýni, tekin af eftirlitsdýralæknunum sem framkvæma kjötskoðun í alifuglasláturhúsum. Árið 2003 voru rannsakaðir 613 kjúklingaeldishópar sem var slátrað í 701 sláturhópi.

2007 - Gott kampýlóbakter ár og engin salmonella í þrjú ár

Alls var 777 kjúklingahópum slátrað árið 2007, 69 hópar reyndust kampýlóbakter mengaðir eða 8,9% sem er það lægsta frá því byrðjað var að leita að kampýlóbakter í hverjum sláturhópi. Á árinu var tæplega 5,1 millj. kjúklinga slátrað, um 300 þús. kjúklingar reyndust kampýlóbaktersmitaðir fyrir slátrun og því allir frystir eða hitameðhöndlaðir. Rétt um 230 þús. (4,5%) fuglar smituðust síðustu dagana fyrir slátrun og má ætla að um helmingur þeirra hafi farið ferskur á markað. Ísland er fremst meðal þjóða hvað varðar lága tíðni kampýlóbakter mengaðra ferskra kjúklinga á markaði, 2,3% á ársgrundvelli. Þennan árangur getum við þakkað mikilli og góðri samvinnu opinberra eftirlitsaðila og kjúklingaframleiðenda.

Hvað er kampýlóbakter?

Baktería, sem:

  • fjölgar sér í meltingarvegi dýra og manna,
  • lifir í matvælum og umhverfinu,
  • getur sýkt fólk þó það innbyrði aðeins fáar bakteríur,
  • drepst við suðu og venjulega matreiðslu ef maturinn er gegnsteiktur,
  • berst milli matvæla með snertingu.

Kampýlóbakter var algengasta orsök staðfestra iðrasýkinga af völdum baktería árin 1996-1998 á Íslandi. Margar tegundir eru til af bakteríunni, Campylobacter jejuni er langalgengasta orsök sýkinga í mönnum, en aðrar mun sjaldgæfari tegundir eru Campylobacter coli og Campylobacter lari.

Hvar er kampýlóbakter?

Helstu heimkynni bakteríunnar eru meltingarfæri húsdýra og villtra dýra, sérstaklega fugla. Fuglar og dýr menga yfirborðsvatn, ár og læki, þar sem bakterían getur lifað svo vikum skiptir. Húsdýr smitast svo við að drekka þetta mengaða vatn. Menn smitast oftast af menguðum dýraafurðum, einkum kjúklingum eða ógerilssneyddri mjólk. Smit frá sýktum hvolpum og kettlingum, svo og menguðu yfirborðsvatni er einnig vel þekkt.

Ræktun kampýlóbakter krefst sérstakra skilyrða og það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem tókst að þróa ræktunaraðferð. Þær rannsóknir sem fylgdu í kjölfarið sýndu, að kampýlóbakter er mjög algengur sýkill í mönnum. Í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum er bakterían meginorsök þeirra iðrasýkinga af völdum baktería sem staðfestar eru á rannsóknastofum. Upplýsingar eru af skornum skammti um útbreiðslu kampýlóbakter á Íslandi.

Hver eru einkenni kampýlóbaktersýkinga?

Kampýlóbakter bakterían veldur bólgu í þörmum með niðurgangi, kviðverkjum, hita, ógleði og uppköstum, en getur líka valdið einkennalausri sýkingu. Sýkingin gengur oftast yfir innan viku án meðferðar, en getur stundum valdið langvarandi fylgikvillum.

Hvernig er hægt að varast kampýlóbaktersýkingu?

    Gegnhita matvæli við matreiðslu

Matvæli eru nægilega hituð þegar kjötsafinn í miðjum þykkasta bita er orðinn tær (ekki blóðlitur) eða þegar steikingahitamælir sýnir 75°C.

    Koma í veg fyrir krossmengun

Við matreiðslu t.d. á fuglakjöti drepast bakteríurnar ef kjötið er gegnsteikt. En berist þær af hráa kjötinu í hrásalatið eða t.d. á diskana geturðu sýkst!

Láttu ekki hráa kjúklinga og önnur hrá matvæli snerta annan mat.

Hindraðu að bakterían berist milli matvæla með höndum, áhöldum og ílátum, skurðarbrettum, borðum, með því að nota sérstök bretti og áhöld og ílát fyrir hrátt kjöt, og önnur fyrir grænmeti, önnur fyrir eldaðan mat. Láttu aldrei eldaðan mat (eða t.d.salöt) á disk/ílát sem hrátt eða illa eldað kjöt hefur verið á. Notaðu ekki sömu töng né sama disk fyrir hrátt og grillað kjúklingakjöt.

Þíddu fuglakjöt í bakka neðst í ísskáp til að koma í veg fyrir að blóðvökvinn berist í annan mat í ísskápnum.

Notaðu ekki kryddlög (marineringu) aftur á annað kjöt.

Einnig getur áhætta fylgt því að drekka ógerilsneydda mjólk og vatn úr lækjum og tjörnum, og vatn úr vatnsveitum þar sem frágangur við vatnsból er ekki nógu góður.

    Þvo oft hendur, borð áhöld og ílát

Þetta er sérstaklega mikilvægt eftir að hrátt fuglakjöt hefur verið meðhöndlað. Einnig á að fylgja þeirri reglu að þvo hendur eftir salernisferðir, bleyjuskipti, umönnun gæludýra ofl.

Ítarefni