Fara í efni

Ársskýrsla MAST 2024

 

Árið í orðum

Árið 2024 var ár umbóta hjá Matvælastofnun. Eftirlit með dýravelferð, matvælaöryggi og heilbrigði dýra er eins og ávallt í brennidepli, þar sem áhersla var lögð á að efla gagnsæi og bæta verklag.

Áframhaldandi skipulagvinna átti sér stað á árinu þar sem þrjár nýjar deildir voru stofnaðar, þ.e. Matvæladeild, Aðföng- og afurðir ásamt Sláturhúsadeild. Eins hélt áfram uppbygging á Fiskeldisdeild sem hefur verið í vexti undanfarin ár. Tilgangur breytinga og uppbyggingar er að styrkja stofnunina, efla starfsánægju en sömuleiðis tryggja skilvirkni og hagkvæmni, skýra hlutverk stofnunarinnar og tryggja að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum. Markmið stofnunarinnar er að vera leiðandi eftirlitsstofnun ásamt því að vera framúrskarandi vinnustaður og að stofnunin vinni samkvæmt gildum stofnunarinnar sem eru fagmennska, gagnsæi og traust sem ein heild.

Eftirlit með matvælaframleiðslu gekk vel á árinu. Ávallt er eitthvað um innkallanir er samvinna við fyrirtækin gengur almennt vel þegar þörf er á að grípa inn í. Hins vegar bar hæst E.coli hópsmit meðal barna á leikskóla í Reykjavík. Matvælastofnun er þátttakandi í aðgerðarhóp sóttvarnarlæknis sem er virkjaður ef upp koma hópsýkingar og rakning á uppruna smits fannst. Lærdómurinn sem dreginn var úr því máli er að nauðsynlegt er að skerpa á þekkingu og meðvitund almennings og matvælafyrirtækja um mikilvægi réttar meðhöndlunar á kjöti. Til að lágmarka líkurnar á að slíkur atburður gerist aftur, hefur verið sett í gang átaksverkefni fyrir árin 2025 og 2026 í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna til að vinna markvisst að fræðslu um áhættur tengdar matvælaöryggi og E.coli kjöti í allri virðiskeðjunni, frá frumframleiðslu til neytanda.

Markverðir áfangar náðust í dýravelferðarmálum þar sem m.a. eftirlitsátak stofnunarinnar eftir breytingar innleiddar 2023 sýndi að allar varphænur landsins eru í lausagönguhúsum og því er varphænsnahald í búrum í landinu runnið sitt skeið. Þó voru nokkur stór dýravelferðarmál til meðferðar hjá stofnuninni og mikilvægt að umræða og meðvitund samfélagsins á dýravelferð sé sífellt að aukast. Vel er að geta að lög um velferð dýra tóku gildi 1. janúar 2014 og hafa því verið í gildi í 10 ár og margt hefur breyst til batnaðar er varðar dýravelferð á þessum 10 árum en betur má ef duga skal og er Matvælastofnun öflugur eftirlitsaðili sem stendur vörð um réttindi dýra.

Riða greindist ekki á árinu 2024 sem er mikið fagnaðarefni og landsáætlun um útrýmingu á riðu sem unnin er af þáverandi Matvælaráðuneyti, núverandi Atvinnuvegaráðuneyti var undirrituð af ráðherra, forstjóra Matvælastofnunar og formanni Bændasamtakanna. Áætlunin er gríðarlegt framfaraskref í baráttunni gegn riðu sem hófst þegar loksins fundust arfgerðir í íslensku sauðfé sem eru þolnar gagnvart þessum illvíga sjúkdómi. Áframhaldandi vinna verður á árinu 2025 og áfram í baráttunni gegn riðu sem er langtímaverkefni.

Eins og nefnt er að ofan, þá átti sér stað áframhaldandi uppbygging í kringum fiskeldiseftirlit stofnunarinnar þar sem m.a. fjárfest var í fyrsta bát stofnunarinnar. Mikilvægt er fyrir stofnunina að vera sjálfbær í framkvæmd eftirlits og ekki háð rekstraraðilum. Fyrsti bátur stofnunarinnar er staðsettur á Vestfjörðum og ætlunin er að fjárfesta í öðrum báti sem verður staðsettur á Austfjörðum.

Matvælastofnun stendur áfram vörð um matvælaöryggi, dýraheilsu og velferð ásamt plöntuheilbrigði af fagmennsku og trúverðugleika með því að efla fræðslu, miðla upplýsingum með skýrum hætti leiðir af sér aukna dýravelferð og ábyrga matvælaframleiðslu á Íslandi.

 

 

 Eftirlit

 

 Rekstur

 

 Vöktun

Varnarefnaleifar í matvælum

Matvælastofnun gerir árlega áætlun um sýnatökur vegna varnarefnaleifa, bæði í innfluttum matjurtum og innlendri ræktun. Framkvæmd sýnatöku og viðbrögð við niðurstöðum eru á hendi Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna, sem samkvæmt lögum fara með eftirlit með frumframleiðslu matjurta sem og með innflutnings- og dreifingaraðilum þeirra. Árið 2024 voru tekin 143 sýni, þar af 10 af innlendri ræktun.

Eitt sýni (0,7%) af innfluttri afurð reyndist vera með varnarefnaleifar yfir leyfilegum hámarksgildum. Í meirihluta sýna (70%) greindust engar leifar efna, en efni innan leyfilegra hámarksgilda greindust í 29,4% sýna. 

Varnarefnaleifar í matvælum - hlutfall sýna í lagi þ.e. án leifa eða með leifar undir hámarksgildum - og sýni yfir hámarksgildum

Ástæður þess að varnarefnaleifar eru yfir hámarksgildi geta verið mismunandi. Þegar um innfluttar afurðir er að ræða er ástæðan oft sú að strangari reglur eru um notkun varnarefna innan EES en í landinu þar sem matvælin eru framleidd. Fyrir sum efni eru hærri leyfileg hámarksgildi, en í sumum tilfellum er um að ræða efni sem er bannað að nota við ræktun á EES svæðinu en ekki í upprunalandinu. Þá getur ástæðan einnig verið að reglum við notkun er ekki fylgt, t.d. að efnið er notað í of miklu magni eða að uppskera fer fram of snemma eftir meðhöndlun.

-----------

Efnaleifar í dýraafurðum 

Skimum fyrir dýrasjúkdómum

Súnur

Salmonella og kampýlóbakter í alifuglum

Salmonella í svínum

Sýklalyfjaónæmi

Sameiginleg skýrsla Matvælastofnunar og sóttvarnalæknis

 

 Inn- og útflutningur

Innflutningur

Dýraafurðir og aðrar eftirlitsskyldar afurðir

Matvælastofnun fer með eftirlit með innflutningi dýraafurða (bjúfjár- og sjávarafurða) og tiltekinna eftirlitsskyldra matvæla sem ekki eru úr dýraríkinu.

Gerður er greinarmunur á innflutningi matvæla eftir því hvort þau eiga uppruna að rekja til ríkja innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Matvæli sem framleidd eru í EES ríkjum og í samræmi við evrópska matvælalöggjöf eru í frjálsu flæði innan EES. Í þessu felst að ekki er þörf á vottun yfirvalda vegna flutnings matvæla á milli ríkja sambandsins.

Hins vegar eru í gildi ströng skilyrði varðandi innflutning dýraafurða og tiltekinna matvæla sem ekki eru úr dýraríkinu, sem ætlaðar eru til sölu/dreifingar á Íslandi en eru framleidd í löndum utan EES, svokölluðum 3. ríkjum.

Innflutningseftirlit fer fram á landamæraeftirlitsstöðvum. Fimm landamæraeftirlitsstöðvar eru starfræktar á landinu, fjórar í suðvesturumdæmi og ein í Suðurumdæmi. Eftirlit felst í skoðun vottorða sem fylgja skulu sendingum, skoðun innsigla, merkinga auk þess sem gert er skynmat og sýnataka fer fram skv. áhættumati.

Fjöldi sendinga 2015-2024

Sending (e. consignment) er skilgreind sem eining/pakkning/gámur sem tilheyrir einu vottorði, svokölluðu CHED (common health entry document) sem nær alla jafna yfir eina afurðategund. Sending getur því verið nokkrir gámar (getur t.d. átt við um lýsi) en algengara er að í einum gámi séu margar sendingar, gjarnan bæði kjöt- og mjólkurafurðir.

Undanfarin ár hefur sendingum sem lúta eftirliti Matvælastofnunar fjölgað talsvert. Hér munar mestu um sendingar frá Bretlandi en eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu telst ríkið til þriðju ríkja og afurðir sem fluttar eru þaðan undirgangast landamæraeftirlit. Árið 2024 lutu 2359 sendingar landamæraeftirliti á Íslandi.

Fjöldi sendinga á hverri landamærastöð

Flestar sendingar eru fluttar til landsins með skipi en um 27% eru flugsendingar. Sendingar skiptust niður á landamærastöðvar eins og hér segir:

Fj. sendinga eftir landamærastöðvum

Flokkun sendinga eftir afurð

Afurðir sem lúta eftirliti eru annars vegar matvæli og fóður sem á uppruna í dýraríkinu og hins vegar matvæli sem ekki eru úr dýraríkinu, þ.e. kornmeti, hnetur, ávextir, grænmeti og krydd og hafa verið skilgreindar sem áhættuvörur af framkvæmdastjórn ESB og lúta þar af leiðandi sérstöku eftirliti.

Árið 2024 var heildarfjöldi sendinga af áhættumatvælum sem ekki eru úr dýraríkinu 119 og heildarmagn tæplega 267 tonn. Af þeim var um 60% sendinga hrísgrjón frá Pakistan og Indlandi og rúmlega 36% jarðhnetu- og hnetuafurðir frá Bandaríkjunum.

Hér á eftir má sjá flokkun eftir afurð eins og afurðirnar eru skilgreindar í löggjöfinni. Notaðar eru enskar skammstafanir – sjá skýringar fyrir neðan.

Hér ber sérstaklega að nefna sk. „storage“ sendingar en hér er um að ræða vörur sem eru innfluttar frá Bretlandi en eiga uppruna innan ESB/EES. Þar sem þær eru framleiddar innan sambandsins gilda sérreglur um vottun þeirra og til að mynda eru ekki tekin sýni af þeim vörum þar sem þær hafa þegar undirgengist viðeigandi sýnatökur á framleiðsluferlinu.

Að frátöldum „storage“ sendingum má sjá að flestar eru sendingar af samsettum matvælum, svo fiskafurðum, þá mjólkurafurðum og síðan dýrafóðri.

CHEDD: Matvæli sem ekki eru úr dýraríkinu og lúta sérstöku eftirliti
COL: Kollagen
COMP/PA: Unnin matvæli sem eru samsett úr afurðum bæði úr dýra- og jurtaríkinu
DAIRY: Mjólkurafurðir
FEED: Fóður
FISH: Fiskafurðir
FISH-CRUST: Skelfiskur
HON: Hunang
MPNT: Kjötafurðir
STORAGE: Afurðir sem eiga uppruna í ESB/EES en eru fluttar inn frá Bretlandi
Annað: Ýmislegt, m.a. eggafurðir, gelatín, lindýr

Lifandi dýr

Lög um innflutning dýra kveða á um almennt bann við innflutningi dýra og erfðaefnis/kímefnis. Þó er Matvælastofnun heimilt að víkja frá því banni ef skilyrðum sem sett eru um slíkan innflutning er fylgt. Settar hafa verið sér reglugerðir um innflutning gæludýra, loðdýra, svínasæðis og erfðaefnis holdanauta. Frjóegg, eldisfiskur, tilraunadýr og tilteknar tegundir skordýra eru einnig reglulega fluttar inn með leyfi Matvælastofnunar. Ef um er að ræða nýjar dýrategundir og eða framandi lífverur lýtur innflutningurinn einnig skilyrðum laga um náttúruvernd og er leyfisveitingarheimild í höndum Náttúruverndarstofnunar.

Afla þarf leyfis Matvælastofnunar áður en dýr eru flutt til landsins. Leggja skal fram heilbrigðisvottorð sem byggir á kröfum sem sett eru af stofnuninni og svo skulu dýrin dvelja í einangrun samkvæmt skilyrðum þar að lútandi.

Dýrategundir og magn innflutnings

Í töflunni má sjá yfirlit yfir innflutning dýra og kímefnis (sæðis/frjóvgaðra eggja) árið 2024

Innflutningur hunda og katta

Árið 2024 voru innfluttir hundar og kettir alls 524 talsins sem er um 13% færri en árið áður. Tvær einangrunarstöðvar fyrir hunda og ketti eru starfræktar á Íslandi. Allir innfluttir hundar og kettir skulu uppfylla heilbrigðisskilyrði sbr. reglugerð þar að lútandi fyrir innflutning og dvelja í einangrun í tvær vikur eftir komuna til landsins. Í einangrun er fylgst með heilsufari dýranna og sýni eru tekin m.t.t. sníkjudýra.

Upprunalönd og tegundir innfluttra hunda og katta

Fjölmargar ólíkar hunda- og katttegundir voru fluttar inn á árinu. Algengastir voru blendingar annars vegar og húskettir hins vegar. Vestur-Evrópulönd og Bandaríkin eru algengustu upprunalönd en hafa skal í huga að eingöngu er heimilt að flytja hunda og ketti til Íslands frá viðurkenndum löndum sem að mati Matvælastofnunar hafa sýnt fram á viðunandi dýrasjúkdómastöðu og dýraheilbrigðisþjónustu.

Plöntur, plöntuafurðir og lífrænar varnir

Matvælastofnun hefur eftirlit með innflutningi plantna og plöntuafurða (þ.á.m. kartaflna), moldar og viðar sem geta borið með sér skaðvalda hættulega innlendri ræktun og íslenskri náttúru.

Eftirlit með innflutningi lífrænna varna heyrir einnig undir þennan málaflokk. Lífrænar varnir eru nýttar í garðyrkju til að vinna gegn skaðvöldum á sjálfbæran hátt og algengast er að nota ýmsa ránmítla og sníkjuvespur sem leggjast á mismunandi tegundir lúsa og kögurvængja.

 

Innflutningur notaðra landbúnaðartækja

Með það að markmiði að fyrirbyggja að smitefni sem eru hættuleg dýrum berist til landsins er kveðið á um skilyrði vegna innflutnings á notuðum tækjum og búnaði sem hafa verið í snertingu við dýr eða dýraafurðir. Hér er fyrst og fremst um að ræða dráttarvélar og hestakerrur og skulu þær þrifnar og sótthreinsaðar áður en þær eru fluttar frá útflutningslandi. Við innflutning fer fram úttekt sem vélarnar skulu standast áður en tollafgreiðsla fer fram. Sé þrifum ábótavant er innflytjanda heimilt að láta þrífa vélina hjá þjónustuaðila sem hefur fengið heimild Matvælastofnunar til þess. Flest landbúnaðartæki sem lúta ofangreindum reglum eru flutt til landsins um Þorlákshöfn.

Útflutningur

Útflutningsvottorð - heildarfjöldi

Alls voru 5.645 vottorð gefin út af Inn- og útflutningsdeild Matvælastofnunar árið 2024 fyrir matvæli, fóður, plöntur og dýr.

Dýraafurðir

Matvælastofnun fer með eftirlit með útflutningi dýraafurða (bjúfjár- og sjávarafurða) og gefur út heilbrigðisvottorð með slíkum afurðum sem framleiddar eru á Íslandi af samþykktum framleiðendum. Útgáfa heilbrigðisvottorða byggir annars vegar á eftirliti stofnunarinnar með viðkomandi framleiðanda (þegar um er að ræða starfsleyfisskylda starfsemi) og hins vegar á kröfum móttökuríkisins.

Þriðju ríki gera ólíkar innflutningskröfur og kröfur geta verið ólíkar eftir um hvaða afurð ræðir. Sum ríki krefjast ekki opinberrar vottunar á meðan önnur krefjast almennrar vottunar sem byggir oft á fyrirliggjandi jafngildismati þess við viðeigandi ESB/EES löggjöf. Önnur ríki, á meðal þeirra eru mikilvæg viðskiptalönd Íslands, gera sérstakar kröfur umfram þær sem gilda innan EES. Þessar kröfur geta t.d. kveðið á um skráningu framleiðanda hjá viðkomandi ríki, sérstakar sýnatökur eða annað verklag. Í slíkum tilfellum verða framleiðendur jafnan að óska eftir aðstoð og eftirliti Matvælastofnunar.

Þegar um er að ræða afurðir sem falla undir EES samninginn er ekki krafa um vottorð vegna útflutnings til ríkja innan ESB/EES.

Bretland

Í byrjun árs 2024 bættist Bretland við þann hóp þriðju ríkja sem fara fram á heilbrigðisvottorð vegna innflutnings afurða. Vottorð sem fylgja afurðum til Bretlands eru rafrænt undirrituð og gefin út í Traces sem er er skráningar- og vottunarkerfi Evrópusambandsins.

Útgefin vottorð til Bretlands voru 512 fyrir fiskafurðir og 58 fyrir kjötafurðir á árinu 2024, samtals 570 sem er ríflega 10% allra útgefinna vottorða.

Lifandi dýr

Hundar og kettir

Heilbrigðisvottun vegna flutnings dýra til annarra landa byggist á kröfum viðkomandi móttökuríkis. Samræmdar reglur gilda í aðildaríkjum ESB, Noregi og Sviss. Matvælastofnun gegnir því hlutverki að árita slík vottorð, þ.e. staðfesta vottun viðkomandi dýralækna. Önnur lönd gera mismunandi kröfur og ekki er alltaf þörf á aðkomu Matvælastofnunar. Árið 2024 voru vottorð vegna útflutnings 199 hunda og 166 katta árituð af stofnuninni, alls 365 vottorð og þar af 7 til annarra landa en ESB/Noregs/Sviss.

Ef um er að ræða hunda og ketti sem fluttir eru án fylgdar til ESB/Noregs/Sviss skal heilbrigðisskoðun og vottun framkvæmd af opinberum dýralækni, þ.e. Matvælastofnun. Fimm slík vottorð voru gefin út árið 2024, 4 fyrir hunda og 1 fyrir kött.

Hross

Heilbrigðisskoðun og vottun vegna útflutnings hrossa er í höndum héraðsdýralæknis Suðvesturumdæmis. Árið 2024 voru 1.275 hross flutt úr landi. 1.203 voru flutt til Liege í Belgíu, 65 til New York, 2 til Grænlands og 5 til Færeyja.

Plöntur og plöntuafurðir

Matvælastofnun gefur út heilbrigðisvottorð vegna útflutnings á plöntum og plöntuafurðum þar sem vottað er að kröfur innflutningslandsins um plöntuheilbrigði séu uppfylltar. Á árinu 2024 voru gefin 79 vottorð vegna útflutnings á plöntum/plöntuafurðum. Flest vottorðin eru vegna plöntuafurða sem fluttar eru utan til frekari vinnslu sem matvæli eða fóður.

 Ábendingar og fyrirspurnir

Á árinu bárust MAST 1.134 ábendingar og 1.881 fyrirspurn. Með því að velja box má sjá annars vegar skiptingu á milli ábendinga og fyrirspurna eftir málaflokkum og hins vegar dýravelferð eftir dýrategundum.

Uppfært 08.07.2025
Getum við bætt efni síðunnar?