Fara í efni

Velferð býflugna og garðaúðun

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur borist ábending frá Býflugnaræktendafélagi Íslands.  Stjórn félagsins hefur lýst yfir áhyggjum sínum af réttarstöðu býflugnabænda og velferð býflugna í tengslum við notkun eiturefna við eyðingu á skordýrum.

Notkun eiturefna við garðaúðun, eftirlit með slíkri starfsemi og útgáfa starfsleyfa á því sviði heyrir ekki undir Matvælastofnun.  Öðru máli gegnir hins vegar með velferð býflugna.

Samkvæmt lögum um velferð dýra nr. 55/2013 hefur Matvælastofnun eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt.  Í 2. gr. laganna er tekið sérstaklega fram að lögin taki til býflugna.

Matvælastofnun vill að þessu tilefni vekja athygli þeirra sem leyfi hafa til garðaúðunar að samkvæmt starfsleyfi þeirra skulu þeir ávallt gæta varúðar við meðferð varnarefna þannig að ekki valdi tjóni á heilsu eða umhverfi utan þess svæðis sem verið er að meðhöndla og skal leitast við að koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif.  Sé þess kostur skal skipta út varnarefnum sem eru talin geta haft í för með sér óæskileg áhrif á heilsu manna eða skaða umhverfið utan þess sem verið er að meðhöndla, fyrir hættuminni varnarefni.  Varnarefnum skal einungis dreift á þau svæði sem meðhöndla skal.

Í starfsleyfinu kemur einnig fram að áður en úðun hefst skuli meta hættuna á því hvort úðinn berist annað en honum er ætlað.  Tilkynna skal umráðendum aðliggjandi lóða við úðunarstað fyrirfram um fyrirhugaða úðun.

Við þetta bætist síðan sú hætta að hunangsframleiðsla býflugna sem nýtt er til manneldis getur orðið fyrir skemmdum ef býflugur sem lent hafa í garðaúðunareitri bera það inn í búið og eitrið borist þannig hugsanlega ofan í neytendur.

Hafa ber í huga að býflugnabú eru nú nokkuð á annað hundrað og er að finna víðs vegar um landið.

Matvælastofnun brýnir fyrir þeim sem leyfi hafa til garðaúðunar að kanna vel hvort býflugnabú eru í nágrenni við þá garða þar sem til stendur að úða.


Getum við bætt efni síðunnar?