Fara í efni

Tilkynningarskylda fæðubótarefna og íblöndunar fellur niður

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Tilkynningarskylda á fæðubótarefnum annars vegar og íblöndun vítamína, steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli hins vegar hefur verið felld niður.

Breytingarnar tóku gildi 11. febrúar s.l:

Hvað þýða þessar breytingar?

Frá 11. febrúar s.l. er ekki lengur gerð krafa til matvælaframleiðenda eða dreifingaraðila að tilkynna markaðssetningu fæðubótarefna og íblandaðra matvæla til Matvælastofnunar. Þetta á einnig við um íblöndun koffíns í matvæli. Orkudrykkir sem innihalda allt að 320mg/l af koffíni eru ekki lengur tilkynntir til stofnunarinnar.

Athugið að ef drykkjarvara inniheldur hærra magn koffíns en 320mg/l þurfa matvælaframleiðendur eða dreifingaraðilar áfram að sækja um leyfi fyrir íblönduninni til Matvælastofnunar. Í þessum tilfellum er ekki um tilkynningarskyldu heldur um leyfisveitingu að ræða.

Ábyrgð matvælafyrirtækja

Tilgangurinn með tilkynningarskyldu um íblöndun og fæðubótarefni var að hafa yfirsýn yfir þau matvæli sem markaðssett eru á Íslandi. Móttaka tilkynningar fól því ekki í sér samþykki Matvælastofnunar fyrir tilkynntri vöru. Það eru matvælafyrirtækin, þ.e. stjórnendur þeirra, sem bera ábyrgð á því að matvælin sem þau framleiða og/eða dreifa séu í samræmi við gildandi reglur. Því er mikilvægt að kynna sér vel gildandi reglugerðir áður en markaðssetning matvara hefst á íslenskum markaði.

Á vef Matvælastofnunar er að finna lög og reglugerðir um matvæli.


Getum við bætt efni síðunnar?