Fara í efni

Staðfest riðutilfelli á Kirkjuhóli

Hefðbundin riðuveiki í sauðfé hefur verið staðfest á bænum Kirkjuhóli í Skagafirði. Grunur um riðuveiki vaknaði í síðustu viku hjá eigendum fjárins vegna dæmigerðra einkenna í einni þriggja vetra á og höfðu umsvifalaust samband við Matvælastofnun. Kindin var aflífuð, sýni tekin úr henni og sett var á flutningsbann vegna rökstudds gruns um riðuveiki. Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum hefur staðfest hefðbundna riðu í sýnunum.

Faraldsfræðileg rannsókn er í gangi og stofnunin hefur sent tilmæli til ráðherra að fyrirskipa niðurskurð á hluta fjárins. Niðurskurður er skipulagður samkvæmt landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu og gildandi reglugerðir þar um. Nokkur hluti fjárins á bænum er með verndandi eða mögulega verndandi arfgerð gegn riðu sem hefur áhrif á ákvörðunartöku um umfang niðurskurðar.

Matvælastofnun vill beina því til sauðfjárbænda að tilkynna tafarlaust til stofnunarinnar ef grunur um riðuveiki vaknar.

 

Ítarefni

Upplýsingasíða Matvælastofnunar um riðu

Landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu


Getum við bætt efni síðunnar?