Fara í efni

Sóttkví fyrir innflutta búrfugla lokað

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eins og Matvælastofnun greindi frá með fréttatilkynningu þann 27. júní sl. stóð til að aflífa búrfugla sem verið höfðu í sóttkví hjá innflytjanda frá því 14. febrúar. Innfluttir búrfuglar skulu dvelja í sóttkví í a.m.k. 4 vikur en á þriðju viku einangrunar greindist smit í sóttkvínni og því var einangrunin framlengd. Þann 26. mars hafnaði Matvælastofnun innflutningnum og gaf innflytjanda kost á að flytja fuglana úr landi ellegar aflífa þá. Innflytjandi fór fram á endurupptöku málsins en henni var hafnað. Lagði innflytjandi þá fram stjórnsýslukæru til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og óskaði eftir frestun réttaráhrifa og varð ráðuneytið við því. Við eftirlit í sóttkvínni þann 22. júní kom í ljós að um þriðjung þeirra fugla sem áttu að vera eftir í sóttkvínni vantaði og hafði innflytjandi ekki gert Matvælastofnun grein fyrir afdrifum þeirra. Vegna brota á skilyrðum innflutningleyfisins afturkallaði stofnunin leyfið. Ekki var unnt að senda fuglana aftur til upprunalands vegna skilyrða þarlendra dýralæknayfirvalda um heilbrigðisvottun og því hugðist Matvælastofnun aflífa þá fugla sem eftir voru í sóttkvínni.

Vegna andmæla innflytjanda varð ekkert úr því þann 27. júní. Þann 2. júlí afturkallaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið frestun réttaráhrifa vegna fyrri ákvörðunar Matvælastofnunar og í kjölfar þess náðist sátt á milli stofnunarinnar og innflytjanda um aflífun. Aflífun fór fram í dag, 6. júlí, og tekin voru sýni sem rannsökuð verða í þeirri von að finna skýringar á þeim miklu afföllum sem urðu í sóttkvínni. Að loknum þrifum og sótthreinsun verður sóttkvíin innsigluð í a.m.k. 30 daga.Getum við bætt efni síðunnar?