Sjóðið frosin ber
Í Danmörku hafa síðustu mánuði komið upp 30 tilfelli af lifrabólgu A (Hepatitis A) og er nú talað um faraldur. Rannsókn hefur leitt í ljós að uppruni smits getur verið frosin ber sem notuð hafa verið ósoðin í drykki (smoothies), eftirrétti og kökur. Ekki hefur enn verið hægt að benda á ákveðna tegund berja en rannsókn er í gangi.
Danska matvælastofnunin ráðleggur neytendum nú að sjóða öll ber sem nota á í drykki, eftirrétti og kökur. Matvælastofnun hefur áður ráðlagt neytendum að sjóða hindbær og á umbúðum hindberja sem eru á markaði hér eru ráðleggingar þar að lútandi.
Í ljósi þess að hérlendis eru sambærilegar vörur á markaði og í Danmörku og vinsælt er að nota frosin ber í drykki ráðleggur Matvælastofnun neytendum að sjóða öll frosin ber í minnst eina mínútu áður en þau eru notuð í drykki og aðra rétti sem ekki eru hitaðir. Matvælastofnun mun fylgjast með málinu og birta frekari fréttir af rannsókn á uppruna smitsins þegar / ef þær berast.