Fara í efni

Samræmt kerfi fyrir allt matvælaeftirlit

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um hvernig skuli áhættu- og frammistöðuflokka matvælafyrirtæki sem heyra undir eftirlit heilbrigðisnefnda í samræmi við breyttar áherslur í íslenskri matvælalöggjöf.

Á árunum 2009 – 2011 voru innleiddar breytingar á íslenskri matvælalöggjöf sem gerðu auknar kröfur um samræmt verklag á landsvísu og að eftirlitsþörf matvælafyrirtækja væri metin út frá áhættu framleiðslunnar og frammistöðu fyrirtækja við að framleiða örugg matvæli. Til að mæta þessum kröfum vann Matvælastofnun í samstarfi við heilbrigðiseftirlitssvæðin að uppbyggingu á nýju kerfi til áhættu- og frammistöðuflokkunar matvælafyrirtækja. Matvælastofnun hefur frá árinu 2012 notað sambærilegt kerfi við mat á eftirlitsþörf matvælafyrirtækja sem sæta eftirliti stofnunarinnar.

Með innleiðingu nýs áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfis fæst aukið samræmi í matvælaeftirliti á landsvísu sem mun auka jafnræði og gagnsæi í stjórnsýslunni og tryggja enn betur að fyrirtæki séu metin á sömu forsendum óháð staðsetningu, starfsgrein eða eftirlitsaðila. Þá mun aukin áhersla á áhættugreiningu fyrirtækja betur tryggja að þunga eftirlits sé forgangsraðað þangað sem mest er þörf á því, sem leiðir af sér betri nýtingu á tíma, mannauði og fjármagni eftirlitsaðila.

Þá felst í kerfinu ótvíræður ávinningur fyrir fyrirtækin en með því að standa sig vel geta þau dregið úr opinberu eftirliti hjá sér um allt að helming og þar með lækkað kostnað sinn við eftirlitið. Fyrirtækjum sem standa sig vel er þannig umbunað á meðan eftirlit er hert með þeim sem endurtekið gerast brotleg. Það hefur sýnt sig að slíkt kerfi er hvati fyrir fyrirtæki til að standa sig vel og uppfylla kröfur.

Matvælastofnun mun áfram aðstoða heilbrigðiseftirlitssvæðin við innleiðingu á nýju áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfi, en gert er ráð fyrir að kerfið verði að fullu innleitt hjá öllum eftirlitssvæðum á næstu tveimur árum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?