Ráðstafanir vegna þrávirkra aðskotaefna
|
Matvælastofnun (MAST)
hefur stöðvað sölu búfjárafurða frá býli í Skutulsfirði vegna þess að
þrávirk aðskotefni greindust yfir leyfilegum viðmiðunarmörkum í
mjólkursýni frá bænum. Greining á þessu sýni var gerð á vegum MS á
Ísafirði eins og fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Mengun
umfram leyfileg mörk var ekki mikil, en af öryggisástæðum hefur vinnsla
mjólkur frá bænum verið stöðvuð og það sama gildir um dreifingu á
afurðum sem rekja má þangað. Á býlinu eru auk 12 mjólkurkúa um 70 kindur og hefur MAST gert ráðstafanir til að taka sýni af afurðum til frekari greiningar. Býlið er skammt frá sorpbrennslustöð á Ísafirði og er grunur um að dioxín og dioxínlík PCB mengun í mjólkinni stafi frá henni. Ekki eru önnur lögbýli nálægt stöðinni, en hins vegar frístundabændur í næsta nágrenni. |
Matvælastofnun annast skipulega vöktun á aðskotaefnum í mjólk og í öðrum búfjárafurðum og hafa niðurstöður fyrir þrávirk efni alltaf verið undir viðmiðunarmörkum. Í sérstakri úttekt sem gerð var á árunum 2003 og 2004 mældist dioxín í mjólkurafurðum langt undir viðmiðunargildum. Flest bendir því til þess að hér sé um að ræða einangrað tilfelli vegna nálægðar við sorpbrennslustöð.
MAST mun taka sýni til frekari mælinga á afurðum svo betri mynd fáist af ástandinu. Jafnframt mun stofnunin huga að heilbrigði og velferð búfjár á svæðinu. Vegna þessa og annarra þátta sem skoða verður hefur stofnunin þegar tilkynnt málið til Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Umhverfisstofnunar og Sóttvarnalæknis og verður haft samráð við þessa aðila um framhald málsins.
Fréttatilkynningu MS má lesa hér. Frekari upplýsingar um málið veitir Sigurður Örn Hansson forstöðumaður matvælaöryggis- og neytendamálasviðs í síma 862 9002.
Ítarefni