Fara í efni

Gleðileg og örugg jól fyrir gæludýrin

Góð rútína, viðeigandi fæði og jafnvægi milli hreyfingar og hvíldar eru lykilatriði til að jólahátíðin sé gleðileg, bæði fyrir dýr og menn.

Jólahátíðin er tími gleði og samveru, en á sama tíma breytinga frá daglegu lífi. Fyrir gæludýrin okkar geta þessar breytingar verið áskorun. Dagleg rútína raskast oft, heimsóknir eru fleiri en vanalega og aðgengi að óhefðbundnum mat og hlutum eykst. Allt þetta getur aukið streitu og hættu á slysum og/eða veikindum hjá gæludýrunum ef ekki er gætt að.

Undirbúningur og fyrirbyggjandi ráðstafanir

Gott er að vera vel undirbúinn fyrir hátíðarnar. Mælt er með að vista símanúmer vakthafandi dýralæknis og kynna sér hvar næsta dýralæknisþjónusta er aðgengileg yfir jólin. Upplýsingar um vakthafandi dýralækna.

Góður undirbúningur getur skipt sköpum ef eitthvað kemur upp á.

Ráðstafanir fyrir eigendur:

  • Vista símanúmer vakthafandi dýralæknis áður en hátíðarnar hefjast.
  • Hafa grunnupplýsingar um gæludýrið tiltækar.
  • Kynna sér neyðarviðbrögð við algengum slysum.
  • Tryggja að allir heimilismeðlimir viti hvaða reglur gilda um dýrið yfir jólin.

Breytt rútína og streita

Mörg gæludýr eru vanadýr og geta brugðist illa við skyndilegum breytingum á umhverfi og dagskipulagi. Aukið áreiti, gestakomur og óreglulegur svefntími geta valdið streitu.

Ráðstafanir fyrir eigendur:

  • Halda fóðrunartímum, göngutúrum og hvíldartíma eins reglulegum og mögulegt er.
  • Tryggja að dýrið hafi aðgang að rólegu athvarfi þar sem það getur dregið sig í hlé.
  • Meta hvort betra sé að dýrið taki ekki þátt í öllum heimsóknum og samkomum.
  • Fylgjast með streitumerkjum, svo sem óróleika, breyttri hegðun eða lystarleysi.

Algengar hættur á heimilinu yfir jólin

Yfir hátíðarnar fjölgar hlutum á heimilum sem geta verið gæludýrum hættulegir, þar á meðal:

  • jólaseríur og rafmagnssnúrur
  • skreytingar, gjafabönd og pakkningar
  • kerti og opinn eldur
  • jólablóm og jólatré
  • rafhlöður og seglar
  • jólamatur, sælgæti og önnur matvæli

Ráðstafanir fyrir eigendur:

  • Geyma skraut, pakka og gjafabönd þar sem dýrið nær ekki til
  • Festa jólatré tryggilega svo það velti ekki og forðast gler- og aðrar brothættar skreytingar neðst á trénu.
  • Festa rafmagnssnúrur og jólaseríur þannig að ekki sé hægt að naga þær.
  • Taka til reglulega og fjarlægja litla hluti sem gætu verið gleyptir, t.d. fallnar barrnálar.
  • Setja kerti aðeins þar sem dýrin komast ekki að þeim
  • Aldrei skilja logandi kerti eftir eftirlitslaus.
  • Velja rafmagnskerti þar sem það er mögulegt.
  • Geyma jólablóm utan seilingar eða velja plöntur sem ekki eru eitruðar.
  • Geyma nýjar og notaðar rafhlöður í lokuðum ílátum.
  • Skoða leikföng og skraut reglulega með tilliti til lausra rafhlaðna eða segla.
  • Leita tafarlaust til dýralæknis ef grunur vaknar um inntöku á seglum eða rafhlöðum.

Matarhættur yfir hátíðarnar

Hefðbundinn jólamatur

Algengt er að eigendur vilji dekra við gæludýr sín yfir jólin. Flest gæludýr og þá sér í lagi hundar, eru viðkvæm fyrir skyndilegum breytingum á fóðri. Saltur, feitur eða kryddaður matur getur valdið meltingartruflunum á borð við niðurgang og uppköst og í alvarlegum tilvikum leitt til dýralæknisheimsóknar yfir hátíðarnar. Sjá nánar um varasaman mat fyrir gæludýr.

Ráðstafanir fyrir eigendur:

  • Halda sig við hefðbundið fóður dýrsins yfir hátíðarnar.
  • Upplýsa gesti, sérstaklega börn, um að ekki megi gefa dýrinu af borðinu.
  • Ef gefa á „jólabita“, velja viðeigandi gæludýrafóður og gefa í hófi.
  • Geyma afganga og matarleifar þar sem dýrið kemst ekki í þær.

Annar varasamur matur

Yfir jólin er oft meira aðgengi að matvælum sem eru hættuleg gæludýrum, meðal annars:

  • súkkulaði
  • laukur
  • vínber og rúsínur
  • avókadó (fuglar)

Bein geta einnig verið varasöm. Elduð bein og skörp bein, svo sem fuglabein, geta stungist í meltingarveginn og önnur bein valdið stíflu.

Ráðstafanir fyrir eigendur:

  • Geyma hættuleg matvæli í lokuðum skápum eða ílátum.
  • Forðast að skilja mat eftirlitslausan á borðum eða lágrekkum.
  • Kynna sér hvaða matvæli eru hættuleg viðkomandi gæludýri.
  • Hafa samband við dýralækni ef grunur vaknar um inntöku.

Með einföldum ráðstöfunum, aukinni meðvitund og góðu skipulagi er hægt að fyrirbyggja flest slys og veikindi gæludýra yfir jólahátíðina. Þannig geta jólin orðið öruggur, rólegur og gleðilegur tími fyrir alla heimilismeðlimi – líka gæludýrin.


Getum við bætt efni síðunnar?