Fara í efni

Öryggi matjurta og fóðurs nálægt gosstöðvum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vegna losunar brennisteinsdíoxíð (SO2) úr eldsumbrotum í Holuhrauni hefur Matvælastofnun skoðað hvort hætta stafi af matjurtum og fóðri á áhrifasvæði eldgossins. Brennisteinsdíoxíð myndar súlfít þegar það kemst í snertingu við vatn/raka. Súlfít eru notuð sem aukefni í matvælaframleiðslu, m.a. til að rotverja vín og önnur matvæli og til að viðhalda rauða lit humars. Súlfít á yfirborði matjurta skolast af með vatni og lækkar styrkur þeirra mikið eftir rigningar. Neysla matjurta á áhrifasvæði eldgossins er ekki hættuleg fólki í því magni sem hér um ræðir og eru áhrif innöndunar brennisteinsdíoxíðs mun meiri. Hins vegar eru súlfít þekktur ofnæmisvaldur og geta matjurtir af svæðinu þar af leiðandi verið varasamar fólki með óþol fyrir súlfítum í matvælum.

Matvælastofnun hvetur fólk sem fyrr til að skola matjurtir og ber vel með vatni fyrir neyslu til að fjarlægja ryk og gosefni sem gætu hugsanlega verið til staðar s.s. súlfít, flúor og önnur snefilefni. 

Þegar litið er til dýra á beit þá stafar þeim mun meiri hætta af innöndun brennisteinsdíoxíðs frá eldgosinu en af því litla magni sem sest á gróður. Nánari upplýsingar um viðbúnað dýraeigenda vegna eldgossins er að finna í ítarefni.

Ítarefni

Mynd: Daði Harðarson / Nýjar víddir


Getum við bætt efni síðunnar?