Fara í efni

Ný skoðunarhandbók fyrir fiskafurðir

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun (MAST) hefur birt á vef sínum nýja skoðunarhandbók fyrir fiskafurðir.

Þann 1. mars 2011 tók MAST yfir reglubundið eftirlit með fyrirtækjum í fiskvinnslu og sjávarútvegi.  Þann dag urðu virk ákvæði í lögum nr. 55/1998 um sjávarafurðir sem leiða til breytinga á skipulagi og framkvæmd opinbers eftirlits. Þessi skoðunarhandbók er liður í þeim breytingum. Í bókina vantar tvo kafla um fyrirkomulag eftirlitsins, en þeir verða birtir um leið og þeir liggja fyrir.

   Bókin sem á sér stoð í lögum nr. 93/1995 um matvæli og sérlögum nr. 55/1998 um sjávarafurðir, byggir á reglugerðum Evrópusambandsins um eftirlit og hollustuhætti við framleiðslu matvæla úr dýraríkinu, sem innleiddar voru hér á landi í mars 2010 fyrir fiskafurðir. Helsta markmið með handbókinni er að tryggja að allar kröfur séu skoðaðar og að samræmi sé við framkvæmd eftirlitsskoðana. Með útgáfu skoðunarhandbóka er stuðlað að auknu gegnsæi í eftirlitsstörfum MAST.


Bókin ber heitið „Skoðunarhandbók - lagarafurðir og lifandi samlokur“, en fiskafurðir úr sjó og ferskvatni eru hér nefndar lagarafurðir og samlokur er heiti á skelfiski í skel.

Eftirlit Matvælastofnunar byggir á gæðakerfi sem samanstendur af verklagsreglum, vinnulýsingum og leiðbeiningum ásamt eyðublöðum og gátlistum. Skoðunarhandbækur eru leiðbeiningaskjöl og eru hluti gæðahandbókar MAST. Þessi skoðunarhandbók byggir að nokkru leiti á sænskri fyrirmynd og verður bókin fyrirmynd annarra skoðunarhandbóka sem MAST mun gefa út á næstu misserum. Hugmynd MAST er sú að þannig fáist mest samræmi í eftirlit sem fram fer á vegum stofnunarinnar, þó svo að framleiðslugreinarnar séu mismunandi. Vel kemur til álita að aðrir eftirlitsaðilar sem hafa eftirlit með framleiðslu matvæla sem verða í frjálsu flæði innan EES svæðisins, styðjist við þessar bækur í sínu eftirliti.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?