Ný greining á fuglainflúensu í ketti
Í gær bárust Matvælastofnun upplýsingar frá Tilraunastöð HÍ að Keldum um að skæð fuglainflúensa af gerðinni H5N5 hafi greinst í sýni sem tekið var úr ketti frá Raufarhöfn fyrir viku síðan. Kötturinn hafði verið veikur, m.a. með taugaeinkenni, og eigendur fóru með hann til dýralæknis á Akureyri sem tilkynnti um hann til Matvælastofnunar.
Um er að ræða um átta mánaða kettling sem varð skyndilega veikur, var orðinn mjög slappur á öðrum degi veikinda og fékk krampa á þriðja degi. Hann var aflífaður. Annar köttur er á sama heimili en hann er frískur. Þetta er þriðji kötturinn sem greinist með fuglainflúensu H5N5, sá fyrsti veiktist í byrjun desember. Alls hafa sýni verið tekin úr tólf köttum frá því í desember en níu þeirra voru neikvæðir.
Engar vísbendingar eru um að þetta afbrigði af fuglainflúensu berist á milli spendýra og því er talið líklegast að þessi kettlingur hafi smitast af sýktum villtum fugli, þrátt fyrir að ekki hafi borist margar tilkynningar um veika eða dauða fugla í nágrenni Raufarhafnar. Aðeins hafa 15 sýni verið tekin úr fuglum á norðausturhorni landsins frá því í september á síðasta ári. Fuglainflúensa af gerðinni H5N5 greindist í sex þeirra, í einum fálka sem fannst nálægt Kópaskeri í september, í fjórum hettumáfum á Húsavík í sama mánuði og í einum silfurmáfi þar í nóvember.
Enn á ný hvetur Matvælastofnun dýraeigendur til að vera vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í dýrum sínum sem geta bent til fuglaflensu og leita tafarlaust til dýralækna ef dýrin verða skyndilega mjög slöpp og fá taugaeinkenni. Viðkomandi dýralæknar hafa svo samband við Matvælastofnun er þeir telja ástæðu til.
Almenningur er líka áfram beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar um veika eða dauða villta fugla og villt spendýr. Það er gert með því að smella á hnappinn „Ábendingar og fyrirspurnir“ á heimasíðu stofnunarinnar (www.mast.is). Mikilvægt er að lýsa nákvæmlega staðsetningu, helst með hnitum, og gott ef hægt er að senda mynd með.
Engin tilfelli eru þekkt í heiminum af sýkingum í fólki vegna fuglainflúensuveiru af því afbrigði sem hefur verið að greinast hér á landi síðustu mánuði.