Fara í efni

Meðhöndlun einnota og margnota umbúða

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsverkefni eru eitt af þeim tækjum sem eftirlitsaðilar nota til að samræma vinnubrögð og til að beina sjónum að ákveðnum þáttum. Meðhöndlun einnota og margnota umbúða í matvælafyrirtækjum skiptir miklu máli fyrir öryggi matvæla. Það er mjög mikilvægt að vel sé gengið um umbúðir og að margnota umbúðir (s.s. kör og kassar) séu hrein. Til að kanna ástandið hjá matvælafyrirtækjum (sérstaklega framleiðslufyrirtækjum) á Íslandi þá hefur Matvælastofnun (MAST) og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna (HES) unnið að könnun á þessum þáttum. Verkefnið hófst 1. apríl 2011 og stendur til 31. nóvember 2011. Að verkefninu loknu verður gefin út skýrsla þar sem niðurstöður þeirra eftirlitsaðila sem þátt tóku í verkefni verða kynntar. Af þeim niðurstöðum sem þegar hafa borist þá eru nokkur atriði sem vert er að benda á (ath. að niðurstöður sem borist hafa eru frá eftirlitsmönnum MAST).

Í fyrsta lagi er umgengni um umbúðageymslur. Það er gerð sú krafa að umbúðageymslur séu hreinar og að þar séu ekki geymdir óskyldir hlutir, s.s. ljósaperur, trébretti og verkfæri. Af þeim niðurstöðum sem þegar hafa borist þá er umgengni ábótavant í 14 af 54 fyrirtækjum.


 
Í öðru lagi er meðferð umbúða í vinnslusölum. Það er mikilvægt að umbúðir sem komast í snertingu við matvæli séu fjarlægðar úr vinnslusölum á meðan þrifum stendur, þetta er gert til að koma í veg fyrir mengun umbúða af þrifaefnum og óhreinindum. Í þeim fyrirtækjum sem skoðuð hafa verið þá voru umbúðir ekki fjarlægðar fyrir þrif í 16 af 72 matvælafyrirtækjum.


 
Að lokum þá hefur verið skoðað í þessari könnun hvort kör/kassar sem notaðir eru fyrir aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis (ABP) séu merkt á fullnægjandi hátt og notuð samkvæmt ákvæðum í reglugerð EB/1774/2002. Þetta er ný krafa hér á landi og því var fyrir fram gert ráð fyrir að töluvert væri um að ákvæðin væru ekki uppfyllt. Það kom síðan á daginn að í 29 fyrirtækjum af 50 voru ákvæðin ekki uppfyllt en aðeins í 21 fyrirtækjum voru kröfur uppfylltar.


 
Matvælastofnun mun í lok þessa verkefnis birta endanlegar niðurstöður allra eftirlitsaðila. Hinsvegar gefa þær upplýsingar sem þegar eru komnar vísbendingar um hvar æskilegt sé að beina eftirlitinu og bæta þannig úr þeim hnökrum sem eru á framkvæmd löggjafarinnar þegar kemur að meðhöndlun einnota og margnota umbúða.


Getum við bætt efni síðunnar?