Fara í efni

Leðurblökur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Af og til berast leðurblökur hingað til lands, samanber nýlegt tilvik þar sem leðurblökur fundust í flutningaskipi sem kom til Siglufjarðar. Matvælastofnun vill vekja athygli á að leðurblökur geta borið ýmsa hættulega sjúkdóma, bæði í menn og skepnur, og því er ástæða til að fara varlega þegar þær eru handsamaðar. Stofnunin vill jafnframt benda á að þegar aflífa þarf leðurblökur, skal það gert með skjótum og sársaukalausum hætti eins og önnur dýr. Tilkynna skal um leðurblökur til viðkomandi héraðsdýralæknis Matvælastofnunar eða Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Vitneskja er um 38 leðurblökur sem fundist hafa hér á landi fram til ársins 2012[1]. Leðurblökur eru þekktir berar af mörgum hættulegustu veirum sem þekkjast s.s. hundaæði, Ebólu, Hendra, Nipha og SARS[2] en þessir sjúkdómar hafa ekki greinst hér á landi. Margar tegundir leðurblakna geta borið þessar veirur hvort sem þær nærast á blóði, skordýrum eða ávöxtum. Hvað þekktast er að leðurblökur beri veiruna sem veldur hundaæði. Hundaæði veldur alvarlegum sársaukafullum einkennum og endar með dauða, nema ef viðkomandi einstaklingur fær mótefni nægilega snemma eftir smit. Það skal þó tekið fram að sú gerð hundaæðiveirunnar sem algengast er að finna í leðurblökum, er ekki mjög smitandi fyrir fólk og dýr. Það er þó alls ekki óþekkt að fólk smitist af leðurblökum og því er fólk varað við að snerta leðurblökur án varúðarráðstafanna.

Þótt ekki sé nema örlítill hluti leðurblakna með hættuleg smitefni í sér er ástæða til að hafa varann á, sér í lagi ef leðurblökurnar haga sér einkennilega, s.s. ef þær liggja á jörðinni, geta ekki flogið eða fljúga á veggi og álíka. Flestar leðurblökur munu reyna að bíta til að verja sig þegar reynt er að handsama þær. Best er að kalla til meindýraeyði, dýralækni eða einhvern annan sem líklegur er til að kunna til verka. Að öðrum kosti má hafa eftirfarandi til hliðsjónar:

  • Klæðist leðurhönskum
  • Ef leðurblakan er hangandi er ráð að setja dós, stórt pappaglas eða kassa yfir hana og renna svo hörðu pappaspjaldi milli leðurblökunnar og þess sem hún hangir í.
  • Ef leðurblakan er á jörðinni er ráð að kasta yfir hana röku handklæði og vefja því svo utanum hana. Rúlla síðan handklæðinu varlega af leðurblökunni yfir kassa, loka honum, festa lokið og gata það.
  • Það má líka nota flugnanetsháfa til að fanga leðurblökur en önnur net eru oft of gróf.

Þegar leðurblökur finnast skal hafa samband við Matvælastofnun (héraðsdýralækni) eða Náttúrufræðistofnun Íslands. Þessar stofnanir sjá til þess að koma leðurblökunum á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum þar sem tekin verða úr þeim nauðsynleg sýni til rannsókna


[1] Petersen et al. 2014. A review of the occurrence of bats (Chiroptera) on islands in the North East Atlantic and on North Sea installations. Acta Chiropterologica, 16(1), 169-195.

[2] Simons, Robin R.L. et al. 2014. Potential for Introduction of Bat-Borne Zoonotic Viruses into the EU: A Review. Viruses, 6, 2084-2121. 


Getum við bætt efni síðunnar?