Fara í efni

Kattafló á innfluttum hundi í einangrunarstöð

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Kattafló fannst á innfluttum hundi í einangrunarstöð fyrir gæludýr í vikunni og var greiningin staðfest af sníkjudýrafræðingum á Tilraunastöð HÍ í meinafræði á Keldum. Gripið verður til nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu smitsins, m.a. hafa þau dýr sem hugsanlega hafa komist í snertingu við smitið, ýmist beint eða óbeint, þegar fengið fyrirbyggjandi sníkjudýrameðhöndlun.

Kattafló (Ctenocephalides felis) hefur greinst í stökum tilfellum á Íslandi en talið er að takist hafi að uppræta hana í hvert sinn. Kattaflóin hefur fundist víðs vegar í heiminum á yfir 50 tegundum af spendýrum og fuglum og getur hún valdið hýslum sínum miklum óþægindum og jafnvel veikindum. Jafnframt getur hún borið með sér fjölda sjúkdóma, af völdum baktería, bandorma og annarra sníkjudýra.

Algengustu einkenni flóasmits hjá dýrum eru kláði vegna ofnæmisviðbragða við flóabiti. Flóin verpir allt að 50 eggjum á dag í feld hýsilsins. Eggin falla af dýrinu og klekjast þá út á teppum, húsgögnum og í glufum í gólfi. Lirfurnar púpa sig á 1-2 vikum en flóin heldur sig í púpunni þar til hentugur hýsill er til staðar eða í allt að ár. Þar sem flóin getur lifað lengi (við kjöraðstæður) í umhverfi dýranna nægir ekki að meðhöndla smituð dýr til þess að uppræta flóasmit. Innandyra skal ryksuga vel gólf og húsgögn og þvo bæli og teppi dýranna í þvottavél og nota svo skordýraeitur sem ætluð eru til notkunar innanhúss.

Skömmu áður en hundar og kettir eru fluttir til landsins skal meðhöndla þá gegn bæði inn- og útvortis sníkjudýrum. Þrátt fyrir slíka meðhöndlun greinast sníkjudýr reglulega í dýrum í einangrun en ávallt er gripið til viðeigandi ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að smit berist í innlend dýr. Í sumum tilfellum er viðkomandi dýrum auk þess fylgt eftir að lokinni útskrift til þess að tryggt sé eins og kostur er að smit hafi verið upprætt.

Það er mikils um vert að koma í veg fyrir að kattafló nái fótfestu hér á landi. Matvælastofnun hvetur því fólk til að vera á varðbergi og hafa samband við dýralækni ef það telur sig sjá flær á dýrum sínum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?