Fara í efni

Kadmíum yfir leyfilegum mörkum í áburði frá Skeljungi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Samkvæmt niðurstöðum efnagreininga sem bárust Matvælastofnun þann 11. júní 2013 á áburði sem Skeljungur hf. flutti inn í vor eru flestar tegundir sem innihalda fosfór með kadmíuminnihald yfir 50 mg/kg fosfórs sem eru leyfileg efri mörk, skv. reglugerð 630/2007. Hæsta gildið var 111 mg kadmíum í kg fosfórs.

Niðurstöður efnagreininga Matvælastofnunar voru tilkynntar Skeljungi samdægurs og með hliðsjón af þeim hefur stofnunin afskráð þessar áburðartegundir og bannað frekari sölu og dreifingu þeirra til notenda. Matvælastofnun hefur gert þá kröfu að Skeljungur hf. upplýsi kaupendur nú þegar um málið og að þeir geti skilað áburðinum sé hann enn til staðar.

Um er að ræða áburðartegundirnar:

  • Sprettur 22-7-6+Se
  • Sprettur 20-10-10+Avail+Se
  • Sprettur 25-9-8
  • Sprettur 20-10-10
  • Sprettur 16-15-12
  • Sprettur 22-6-13
  • Sprettur 12-12-20+B+Avail
  • Sprettur 22-14-9
  • Sprettur 26-13
  • Sprettur 25-5+Avail+Se
  • Sprettur 25-5
  • Sprettur 20-12-8+Se
  • Sprettur 22-7-6.

Áburðurinn hefur ekki í för með sér bráða hættu, hvorki fyrir umhverfi eða dýr, en kadmíum er þungmálmur sem safnast upp í jarðvegi og með endurtekinni notkun á kadmíum ríkum áburði skapast hætta á skaðlegum áhrifum vegna aukinnar upptöku plantna á efninu.

Í yfirlýsingu frá framleiðanda sem Skeljungur afhenti Matvælastofnun í ársbyrjun kom fram að einungis yrði notaður fosfór sem innihéldi undir 5 mg kadmíum/kg fosfórs. Með yfirlýsingunni fylgdi efnagreiningavottorð frá efnagreiningastofu vegna kadmíum.

Samkvæmt niðurstöðum mælinga stenst umræddur áburður ekki þær kröfur sem gerðar eru skv. löggjöfinni um innihald kadmíum og ætti að skipta honum út fyrir áburð sem uppfyllir kröfur að þessu leyti. Skeljungur hefur upplýst Matvælastofnun um að fyrirtækið hyggist leita leiða til að útvega kaupendum annan áburð. Takist ekki að útvega annan áburð þarf að skoða málið að nýju með hugsanlega nýtingu þessa áburðar í huga þannig að ekki skapist vandamál vegna áburðarskorts í landinu.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?