Fara í efni

Íslenskt sjávarfang hreint og ómengað

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Samkvæmt nýrri skýrslu frá Matís, Undesirable substances in seafood products – results from the Icelandic marine monitoring activities, inniheldur ætilegur hluti fisks af Íslandsmiðum mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum.


  Skýrslan sýnir niðurstöður mælinga á magni eitraðra mengunarefna í íslenskum sjávarafurðum á árinu 2008 og er hluti af sívirku vöktunarverkefni sem styrkt er af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og hefur verið í gangi frá árinu 2003. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar sýna niðurstöður ársins 2008 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt.
 
Olía og mjöl gert úr kolmunna á það þó til að vera nálægt eða yfirstíga leyfileg mörk fyrir viss efni. Einnig getur þorskalifur farið upp fyrir leyfileg mörk.

Gögnin sem safnað er ár frá ári í þessu verkefni fara í að byggja upp sífellt nákvæmari gagnagrunn um ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. mengunarefna. Skýrslan er á ensku og er aðgengileg á vef Matís þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.

Niðurstöður mælinga á þorskalifur, fiskimjöli og lýsi til fóðurgerðar staðfesta nauðsyn þess að fylgjast vel með magni þrávirkra lífrænna efna eins og díoxíns, PCB efna og varnarefna í þessum afurðum á vorin. Styrkur efnanna er háður næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna sem afurðirnar eru unnar úr og nær hámarki á hrygningartíma. Þá hættir magni díoxína og díoxín-líkra PCB efna auk einstakra varnarefna til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins.  Þetta á sérstaklega við um afurðir unnar úr kolmunna.

/www.matis.is

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?