Innflutningseftirlit: skylt að skrá tollskrárnúmer í farmskrá frá 1. janúar 2025
Frá og með 1. janúar nk. skulu farmflytjendur skrá fyrstu sex stafina í tollskrárnúmeri vöru (HS kóða) í farmskrá. Yfirvöldum ber að hafa virkt eftirlit með sendingum til landsins með það að markmiði að tryggja að allar afurðir og vörur frá þriðju ríkjum (utan EES) sem eru eftirlitsskyldar m.t.t. matvælalaga, séu bornar undir eftirlit. Með þessari breytingu á reglugerð nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru eru yfirvöld að bregðast við ábendingum Eftirlitsstofnunar EFTA um að vöktun á innflutningi sé ábótavant og hætt sé við því að dýraafurðir og aðrar eftirlitsskyldar afurðir sem hafi ekki staðist landamæraeftirlit berist inná Evrópska efnahagssvæðið í gegnum Ísland.
Krafan um HS kóða bætist við 5. gr. ofangreindrar reglugerðar um upplýsingar sem ábyrgðarmenn farmskráa skulu leggja fram í farmskrá sem afhent skal tollstjóra við komu til landsins. Tollstjóri afhendirsvo Matvælastofnun gögn sem varða eftirlitsskyldar afurðir, þ.e. þær vörur sem falla í tollflokka sem stofnuninni ber að hafa eftirlit með.
Sem fyrr segir mun krafan um HS kóða í farmskrá taka gildi þann 1. janúar 2025. Þrátt fyrir þetta er tollyfirvöldum heimilt að veita ábyrgðaraðila farmskrár undanþágu til 1. janúar 2026 að því gefnu að hann muni leggja fram til Matvælastofnunar fullnægjandi upplýsingar um innflutning eftirlitsskyldra afurða frá þriðju ríkjum. Sækja skal um slíka undanþágu til MAST og framvísa undanþáguheimild til tollyfirvalda.
Matvælastofnun bendir á að verði ofangreind skilyrði ekki uppfyllt frá og með 1. janúar nk. mun það hafa áhrif á tollafgreiðslu.
Nánari upplýsingar og leiðbeiningar vegna undanþáguumsóknar.