Fara í efni

Hundaeigandi sviptur dýrum sínum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur tekið tvo hunda og átta hvolpa úr vörslu eiganda. Ástæða vörslusviptingar er óviðunandi aðbúnaður og umhirða, sinnuleysi og vanþekking til að halda dýr.

Umdæmisskrifstofu Matvælastofnunar á Suðvesturlandi barst í vor ábending um tík á lausagangi. Hún var örmagna og við það að gjóta. Haft var upp á eiganda tíkurinnar sem hafði ekki gert neinar ráðstafanir þegar tíkin, sem var hvolpafull og komin að goti, hvarf frá heimili sínu. Eigandinn reyndist eiga aðra tík sem haldin var við óviðunandi aðbúnað og umhirðu. Að lokinni aðhlynningu tók Dýrahjálp við hundunum til að útvega þeim ný heimili. Matvælastofnun þakkar Dýrahjálp og öðrum sem komu að málinu fyrir sitt framlag.

Skv. 38. gr. laga um velferð dýra getur Matvælastofnun tekið dýr úr vörslu umráðamanns telji stofnunin að úrbætur þoli enga bið, hafi dýrið orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Matvælastofnun er heimilt að krefja umráðamann dýra um kostnað af þvingunaraðgerðum sbr. 40. gr. laganna.

Frétt uppfærð 29.05.17 kl. 11:02

Mynd tengist ekki frétt með beinum hætti


Getum við bætt efni síðunnar?