Fara í efni

Hitastig í lönduðum afla í júlí

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

   Nú í sumar hefur verið gert átak í eftirliti með lönduðum afla í höfnum landsins. Átakið hefur falið í sér mælingar á hitastigi og mat á aflameðferð. Góð kæling afla er mjög mikilvægur þáttur í að skila góðu hráefni að landi. Hér er fjallað um niðurstöður hitastigsmælinga fyrir júlí.

Grafið sem hér er að neðan er s.k. kassarit (box and whisker). Miðlína kassans er miðgildi mælinganna, efri mörk kassans er sú mæling sem er í miðju þeirra gilda sem eru fyrir ofan miðgildið og neðri línan er sú mæling sem er í miðju þeirra gilda sem eru fyrir neðan miðgildið. Strikin við endana sýna hæstu og lægstu mældu gildin. Krossarnir og gildið sem skráð er við þá er meðalhitinn.Ef mælingarnar eru bornar saman við mælingar í júní þá er ljóst að staðan hefur versnað milli mánaða. Meðalhiti allra mælinga var nú 3,7°C en var 2,9°C síðustu tvær vikurnar í ágúst. Ef horft er á seinasta kassann þar sem tekið er saman það sem kemur óísað að landi þá er meðalhitinn í þeim afla 9,1°C sem er mjög hátt og er í raun ávísun á lélegt, jafnvel ónýtt hráefni. Þess ber þó að geta að það eru 6,5% aflans sem eru í þessum flokki.  Almennt þá fer sjávarhiti hækkandi hér við land í júní og hækkar allt fram í ágúst og fer síðan hægt lækkandi. Það virðist því vera sem sjómenn geri ekki nægar ráðstafanir til að vinna gegn þessari hækkun í sjávarhita yfir sumarmánuðina, því heitari sem sjórinn er því meiri ís þarf til að kæla fiskinn niður. Ef bornar eru saman þær tvær aðferðir sem notaðar eru til kælingar, þá hefur rétt notkun á krapa klárlega vinninginn umfram hefðbundna ísun.

Sumarstarfsmenn Matvælastofnunar hafa nú lokið störfum en veiðieftirlitsmenn Fiskistofu munu halda áfram að framkvæma mælingar á lönduðum afla. Á næstu dögum verður unnið nánar úr þeim gögnum sem borist hafa í sumar og í kjölfarið verða birtar meiri upplýsingar og fréttir á heimasíðu Matvælastofnunar.

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?