Fara í efni

Gefum ekki dýr í gríni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun vekja athygli á að óheimilt er að selja, gefa eða afhenda dýr einstaklingi sem ástæða er til að ætla að hafi ekki aðbúnað, getu eða vilja til að annast dýrið í samræmi við lög um velferð dýra. M.ö.o. þá er bændum og öðrum dýraeigendum óheimilt skv. lögum um velferð dýra að selja eða gefa frá sér dýr nema þeir viti fyrir fram að viðtakandi vilji eignast dýrið og hafi viðunandi aðstöðu og getu til að hugsa um það. Jafnframt tilgreina lögin að veita skuli viðtakanda dýrs, eftir því sem við á, upplýsingar um atriði sem máli skipta um velferð þess.

Dæmi eru um að mætt sé með lömb, grísi, hana og önnur dýr við ýmis tækifæri s.s. afmæli og önnur tilefni. Það getur verið gert sem grín, sem skemmtun eða sem fræðsla. Slíkir gjörningar rata gjarnan í fjölmiðla og vekja ánægju meðal þátttakenda en ekki endilega meðal dýranna. Markmið laga um velferð dýra „er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“ Það er jákvætt að auka nálægð almennings við dýr en það þarf að gera það á réttan hátt og í samræmi við lög. Best er að leggja af gríngjörninga með dýr og að gefa dýr í gríni. Við sýningu, flutning og alla meðhöndlun dýra þarf að gæta fyllstu nærgætni þannig að þau verði ekki hrædd, passa upp á vatn og fóður og ætíð forðast hávaða og læti.


Getum við bætt efni síðunnar?