Fara í efni

Fundur Matvælastofnunar og Sendiráðs Íslands í Moskvu með fulltrúum Rosselkhoznadzor í Moskvu 7. október 2021

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Snemma októbermánaðar fór þriggja manna sendinefnd frá Matvælastofnun (MAST) til Moskvu í þeim tilgangi að funda með forstjóra eftirlitsstofnunar rússneska sambandsríkisins á sviði dýra- og plöntuheilbrigðis (Rosselkhoznadzor) og hans starfsfólki um útflutning á dýraafurðum til Rússlands og Evrasíska efnahagssambandsins (EAEU). Fundinn sátu fyrir hönd Íslands Hrönn Ólína Jörundsdóttir forstjóri Matvælastofnunar, Jón Ágúst Gunnlaugsson (MAST), Þorvaldur H. Þórðarson (MAST), Kristín Halla Kristinsdóttir sendiráðunautur (Sendiráð Íslands í Moskvu) og Ilona Vladimirovna Vasilieva viðskiptafultrúi (Sendiráð Íslands í Moskvu).  Af hálfu Rosselkhoznadzor sátu fundinn Sergey Alekseevich Dunkvert – forstjóri Rosselkhoznadzor, Artem Adgoamovich Daushev – ráðgjafi forstjóra Rosselkhoznadzor, Ksenia Maksimovna Maksimova – ráðgjafi forstjóra, Anna Dmitrievna Bukina – sviðsstjóri samskipta við alþjóðastofnanir og eftirlits í deild fyrir dýralæknaeftirlit tengt út- og innflutningi og alþjóðasamvinnu. Elena Andreevna Ermakova – túlkur.

Fundurinn fór fram á árlegri landbúnaðar- og sjávarútvegssýningu í Patriot Park, Kubinka í útjaðri Moskvu.

Á fundinum fór rússneska sendinefndin  yfir viðskipti með dýraafurðir á undanförnum árum. Talsvert hefur dregið úr útflutningi á dýraafurðum frá Íslandi. 

Íslenska sendinefndin greindi frá aðgerðum sem Matvælastofnun hefur gripið til, þar á meðal skoðun á rússnesku löggjöfinni gagnvart sérkröfum markaðarins og innleiðingu sérstakra úttekta sem miðast við rússneska löggjöf. Eins eru hafin samskipti við íslenskar afurðastöðvar um áhuga á viðskiptum við Rússland og Evrasíska efnahagssambandið. Sértækar úttektir á starfsemi stöðvanna til samræmis við rússnesku löggjöfina eru hafnar ásamt opinberum sýnatökum til vöktunar á aðskotaefnum og örverum í afurðum. Á grundvelli aðgerða Matvælastofnunar var óskað eftir að opnað yrði fyrir viðskipti einstakra afurðastöðva. Af hálfu Rosselkhoznadzor var slíkt talið mögulegt en fyrst vildu rússnesk yfirvöld  fá gögn um framvindu mála og niðurstöður eftirlits.  Þá gerðu þau kröfu um eigin úttektir  á Íslandi.  Boðið var uppá þrjá tímaglugga sem miðast við veiðar á loðnu, makríl og síld.  Á síðasta tímabilinu er jafnframt sauðfjárslátrun í gangi sem væri þá hægt að skoða á sama tíma.

Matvælastofnun heldur áfram að vinna eftir viðeigandi aðgerðaáætlun og væntanlega verður fyrstu umferð úttekta lokið um næstu áramót. Framhaldið miðast síðan við niðurstöður áfangans.   Skýrslur um framvindu mála og niðurstöður eftirlits munu sendar til Rússlands eftir því sem fram vindur.     


Getum við bætt efni síðunnar?