Fara í efni

Fuglainflúensa í ketti

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum tilkynnti Matvælastofnun þann 6. janúar að kettlingur, sem barst rannsóknarstöðinni til krufningar, hefði greinst með skætt afbrigði fuglainflúensu (H5N5). Það er sama afbrigði og hefur greinst í villtum fuglum hér á landi frá því í september í fyrra og á einu alifuglabúi í byrjun desember. Matvælastofnun gaf strax fyrirmæli um sóttvarnir til að hindra smitdreifingu og vinnur nú að því að rekja smitið. Sjúkdómseinkenni í þessum ketti voru m.a. lystarleysi, slappleiki, stífleiki, skjálfti, krampar og önnur taugaeinkenni. Kattaeigendur eru beðnir um að hafa strax samband við dýralækni verði þeir varir við slík einkenni í köttum sínum.

Kötturinn sem fuglainflúensan greindist í var 10 vikna kettlingur sem drapst 22. desember. Læðan sem kettlingurinn var undan og annar kettlingur úr sama goti drápust eftir stutt veikindi tveimur dögum áður. Þau voru ekki rannsökuð. Önnur gotsystkini kettlingsins voru farin af heimilinu áður en veikindi komu upp og eru í dag öll einkennalaus. Kettirnir eru frá Ísafirði en kettlingurinn sem sýkingin greindist í var kominn til Reykjavíkur. Samband hefur verið haft við eigendur allra kattanna.

Matvælastofnun álítur að líklegast sé að kettirnir hafi smitast af sýktum villtum fugli. Að svo stöddu eru engar vísbendingar um smit í fleiri köttum, en Matvælastofnun biður kattaeigendur og dýralækna að vera á verði gagnvart sjúkdómseinkennum sem geta bent til fuglainflúensusmits. Nokkuð hefur verið um greiningar í villtum fuglum undanfarna mánuði og því einhver hætta til staðar að kettir geti smitast við veiðar eða af hræjum sem þeir komast í. Matvælastofnun telur þó hættuna ekki það mikla að ástæða sé til að vara við útigöngu katta. Fólk er þó minnt á að gæta ávallt almenns hreinlætis í umgengni við dýr og umhirðu þeirra. Almennar upplýsingar um fuglainflúensu og leiðbeiningar um sóttvarnir er að finna á heimasíðu Embættis landlæknis. Rétt er að taka fram að smithætta fyrir fólk af völdum fuglainflúensuveira er lítil, samanber upplýsingar á vefsíðu Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC).

Skæð fuglainflúensa hefur undanfarin misseri greinst æ oftar í ýmsum tegundum spendýra víða um heim. Aðallega hefur verið um að ræða skæða afbrigðið H5N1. Þessi þróun sýnir glöggt hæfileika veirunnar til að aðlagast nýjum dýrategundum. Eitt mesta áhyggjuefnið á alþjóðavísu hvað þetta varðar er sá faraldur sem nú geisar af völdum skæða afbrigðisins H5N1 í mjólkurkúm í Bandaríkjunum. Arfgerð þeirrar veiru sem þar um ræðir hefur þó enn sem komið er ekki greinst annars staðar í heiminum. Nákvæmar upplýsingar um það er að finna á síðum landbúnaðarstofnunar Bandaríkjanna USDA og sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna CDC.

Fá tilfelli hafa aftur á móti greinst af völdum skæða afbrigðisins H5N5 í spendýrum. Þetta afbrigði hefur aðallega greinst í villtum fuglum á norðurslóðum en á síðasta ári greindist það þó líka í rauðrefum og gaupu í Noregi, otri í Hollandi, gaupu í Finnlandi og í rauðrefum, skunki og þvottabirni í Kanada. Greining á þessu afbrigði í heimilisdýri hefur fram til þessa ekki verið tilkynnt til Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (WOAH).

WOAH hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á baráttu gegn útbreiðslu fuglainflúensu og birti á heimasíðu sinni nú í desember ákall til allra þjóða heims um að leggja meiri áherslu á eftirlit og aðgerðir til að sporna gegn útbreiðslu skæðra fuglainflúensuveira.

Matvælastofnun ítrekar tilmæli til almennings um að tilkynna stofnuninni um villta fugla og villt spendýr sem finnast dauð, þegar ástæða dauða er ekki augljós. Það er best að gera með því að skrá ábendingu á heimasíðu Matvælastofnunar. Mikilvægt er að gera vel grein fyrir staðsetningu, helst með því að skrá hnit.

Ítarefni:

Upplýsingasíða Matvælastofnunar um fuglainflúensu.


Getum við bætt efni síðunnar?