Fuglaflensa staðfest á Íslandi
Fuglaflensa hefur verið staðfest í þremur villtum fuglum á landinu sem fundist hafa undarfarna daga. Um er að ræða heiðagæs við Hornafjörð, hrafn á Skeiðum í Árnessýslu og súlu rétt við Strandakirkju við Suðurstandaveg. Þá hafa heimilishænsni á bóndabæ á Skeiðum, þar sem hrafninn fannst, sýnt sjúkdómseinkenni og voru fuglarnir allir aflífaðir í dag. Sýni hafa verið tekin úr hænsnunum og er beðið niðurstöðu rannsóknar. Fuglaflensuveiran sem staðfest hefur verið í villtum fuglum er af gerðinni H5. Meinvirkni veirunnar er ekki þekkt. Beðið er niðurstaðna frekari greiningar frá erlendum rannsóknarstofum.
Viðbragðsáætlun Matvælastofnunar um viðbrögð og varnir gegn smitandi sjúkdómum í fuglum hefur verið virkjuð.
Um fuglaflensu sjá: https://www.mast.is/is/baendur/lyfja-og-sjukdomaskraning/listi-yfir-sjukdoma-og-meindyr/fuglaflensa
Hænsfugla skyldi halda undir þaki til að draga úr líkum á útbreiðslu veirunnar. Matvælastofnun brýnir alla alifuglaeigendur til að verja þá fyrir smiti frá villtum fuglum, m.a. halda undir þaki og girða af. Sjá nánar: https://www.mast.is/is/um-mast/frettir/frettir/varnaradgerdir-gegn-fuglaflensu
Þau afbrigði veirunnar sem nú er mest um í nágrannalöndum okkar (H5N1) hafa ekki valdið sýkingum í fólki. Ekki er talin hætta á að smit berist í fólk við neyslu eggja eða kjöts af alifuglum. Líkurnar á smiti frá fuglum í fólk eru því litlar en þó er aldrei hægt að útiloka smit og fólk þarf ávallt að gæta sóttvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum.
Matvælastofnun hvetur almenning til að tilkynna um dauða villta fugla sem finnast á víðavangi ef ekki er augljóst að þeir hafi drepis af slysförum. Best er að tilkynna í gegnum ábendingarkerfi á heimasíðu Matvælastofnunar (mast.is). Þörf á sýnatöku verður metin af stofnuninni.
Nánari upplýsingar veitir: Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir.