Fara í efni

Flúor undir mörkum í heyi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hafa borist upplýsingar frá Alcoa um niðurstöður flúormælinga í heyi sem framkvæmdar voru í Reyðarfirði af Náttúrustofu Austurlands 8. október s.l. Samkvæmt reglugerð um óæskileg efni í fóðri eru hámarksgildi flúors í fóðri 50 mg/kg fyrir nautgripi, geit- og sauðfé en 30 mg/kg ef dýrin eru mjólkandi. Safnað var sýnum af flestum túnum á svæðinu og sýna niðurstöður mælinga að magn flúors var í öllum tilfellum undir hámarksgildum (<50 mg/kg). Í tveimur mælingum af sautján reyndist magn flúors yfir mörkum fyrir mjólkandi dýr (>30 mg/kg eftir endurútreikning miðað við 88% þurrefni fóðurs). Í báðum tilfellum var um að ræða tún sem hestamenn í Reyðarfirði heyja fyrir hross en mælingarnar eru vel undir hámarksgildum fyrir fóður sem ætlað er hrossum. 

Niðurstöður mælinga á heyi gefa ekki tilefni til breyttrar afstöðu Matvælastofnunar. Ekki er tilefni til að ætla að fólki stafi hætta af neyslu búfjárafurða eða matjurta af svæðinu og telur stofnunin ekki ástæðu fyrir bændur að breyta búháttum sínum, fóðrun eða beitarvenjum. Hins vegar er mikilvægt að fyrirbyggja uppsöfnun flúors í lífríkinu og að fyrirtæki viðhaldi viðeigandi vöktunaráætlun og tækjabúnaði til að halda mengandi starfsemi innan þeirra marka sem starfsleyfi frá Umhverfisstofnun kveða á um.

Matvælastofnun bíður nú niðurstaðna mælinga á flúori í sauðfjárhausum og mun fylgjast áfram með málinu. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?