Fara í efni

Fæðubótarefni sem innihalda hættuleg og óleyfileg lyfjaefni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 17. janúar sl. birti Matvælastofnun lista yfir fjölda vara sem reynst höfðu innihalda efnið sibutramine án þess að þess væri getið á umbúðum varanna. 

Nýlega hafa Matvælastofnun borist upplýsingar frá bresku lyfjastofnuninni (Medicines and Healthcare Products Regulatory Agency, MHRA), um vöruna, Paiyouji Plus-Fast Acting Slimming Tea, sem reynst hefur innihalda efnið sibutramine ásamt efninu phenolphthalein. Á lista yfir vörur sem innihalda sibutramine sem Matvælastofnun birti 17. janúar sl. var m.a. varan Expelling Grease Slimming Abdomen. Samkvæmt upplýsingum MHRA hefur nú nýlega komið í ljós að auk þess að innihalda sibutramine, inniheldur sú vara einnig phenolphthalein. Efnanna sibutramine og phenolphthalein er ekki getið á innihaldslýsingum varanna.

Sibutramine er lyf sem var afturkallað af markaði í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar árið 2010 vegna alvarlegra aukaverkana einkum tengdum hjarta- og æðakerfi.

Phenolphthalein er lyf sem var áður notað sem hægðalosandi en notkun hefur verið hætt vegna vísbendinga um að það valdi krabbameini.

Skv. 11. gr. matvælalaga er innflutningur og dreifing matvæla þ.m.t. fæðubótarefna sem innihalda lyf eða lyfjavirk efni, óheimil.  Auk þess er skv.8.gr. matvælalaga óheimilt að markaðssetja matvæli sem eru ekki örugg til neyslu þ.e. heilsuspillandi.  Umræddar vörur eru því ólöglegar til innflutnings og markaðssetningar.
Fæðubótarefni sem koma frá löndum evrópska efnahagssvæðisins eru í frjálsu flæði til landsins og því fyrst og fremst undir markaðseftirliti hérlendis. Eftirlit með fæðubótarefnum á markað hérlendis er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Innflutningseftirlit er í höndum Matvælastofnunar og síðustu ár hefur innflutningseftirlit með fæðubótarefnum verið talsvert aukið.

Samkvæmt reglugerð um fæðubótarefni er innlendum framleiðanda/innflytjanda skylt að tilkynna innflutning/markaðssetningu nýrra fæðubótarefni til Matvælastofnunar. Viðkomandi vörur hafa ekki verið tilkynntar til stofnunarinnar og hefur stofnunin því ekki upplýsingar að vörurnar séu á almennum markaði hér á landi. Hinsvegar eru vörurnar eða hafa verið til sölu í póstverslun í gegnum internetið. Matvælastofnun beinir því til neytenda að hafa samband við viðkomandi heilbrigðiseftirlit hafi þeir upplýsingar um vörurnar á innlendum markaði.

Matvælastofnun hvetur fólk til að kaupa ekki vörurnar eða neyta þeirra þar sem þær geta verið hættulegar heilsu fólks.

Fréttir á heimasíðu MHRA:


Getum við bætt efni síðunnar?