Fara í efni

Engin merki um frekari útbreiðslu kattaflóar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun greindi nýverið frá greiningu kattaflóar á Suðurlandi. Síðastliðinn vetur hafði kattafló fundist á höfuðborgarsvæðinu en það er í fyrsta skipti sem óværan greinist á Íslandi. Ekki hafa fundist merki um frekari útbreiðslu á Suðurlandi. Matvælastofnun biðlar til hunda- og kattaeigenda og dýralækna að sýna árvekni og upplýsa stofnunina ef flóar verður vart,

Í kjölfar greiningar kattaflóar á býli í Flóanum í september skoðuðu eftirlitsmenn Matvælastofnunar öll gæludýr á nærliggjandi bæjum sem ætla mátti að hefðu getað komist í snertingu við smituð dýr. Einnig var köttur sem afhentur var af býlinu í sumar á nýtt heimili rannsakaður, ásamt öðrum dýrum á heimilinu. Engin ummerki kattaflóar fundust.

Meðhöndlun hefur hafist á dýrunum á bænum sem flærnar fundust á en bærinn verður áfram í einangrun hvað varðar flutning gæludýra til og frá bænum. Áfram verður skylt að halda köttum inni og hundum frá öðrum dýrum þar til endurtekin meðhöndlun og skoðun hefur verið framkvæmd.

Ef uppræta á þenna vágest er mikilvægt að Matvælastofnun berist ábendingar um allan grun um kattafló, sem sækir bæði á hunda og ketti. Hægt er að tilkynna slíkt í gegnum ábendingakerfi stofnunarinnar á forsíðu mast.is undir Senda ábendingu eða í síma 530-4800. Þar sem litlar líkur eru á smiti af völdum fuglaflóar á þessum árstíma biðlar stofnunin til allra hunda- og kattaeiganda um allt land að vera vakandi og leit merkja um flær í feldi dýra sinna. Ef slíkur grunur vaknar skal leita til dýralæknis til staðfestingar en þó án þess að fara með smituð dýr á biðstofur án samráðs við dýralækninn til að fyrirbyggja frekari útbreiðslu. Einnig skal leita strax til dýralæknis ef eigandi verður vart við að dýr fái húðútbrot eða kláða.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?