Fara í efni

Ekkert innflutningsbann á kartöfluútsæði

Bændasamtök Íslands sendu erindi til Matvælaráðuneytisins þar sem óskað var eftir tímabundnu banni á innflutning kartöfluútsæðis. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins. Í framhaldinu hefur ráðuneytið ákveðið að ekkert bann verði lagt á innflutninginn.

Ástæða upphaflega erindisins var sú að skæður stofn kartöflumyglu hafi herjað mikið á kartöflurækt í m.a. Hollandi þaðan sem megnið af innfluttu útsæði kemur. Hætta var talin á að nýr stofn kartöflumyglu gæti borist til landsins sem væri þolnari gegn varnarefnum en sá stofn sem þegar er til staðar í landinu.

Ákvörðunin um að verða ekki við þessari ósk byggist á því að bann í eitt tímabil leysi ekki vandamálið til framtíðar ef annarra leiða er ekki leitað, t.a.m. að efla innlenda framleiðslu og vefjaræktun til að anna eftirspurn eftir kartöfluútsæði. Bændasamtökin voru hvött til að upplýsa ræktendur og innflytjendur um stöðuna og áréttað var um ábyrgð ræktenda hvað varðar sóttvarnir en ræktendur bera ávallt ábyrgð á sínum ræktunaraðferðum og starfsháttum.

Matvælastofnun hvetur ræktendur til að vera vakandi fyrir sjúkdómnum þegar ræktun hefst og fylgjast vel með görðum sínum. Einnig er bent á mygluspá Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins sem er virk yfir ræktunartímabilið og aðgengileg á vefsíðu hennar www.rml.is.


Getum við bætt efni síðunnar?