Fara í efni

Ábyrg notkun sýklalyfja við slefsýki í lömbum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú í sauðburði minnir Matvælastofnun á leiðbeiningar um ábyrga notkun á sýklalyfjum við slefsýki í lömbum og meðhöndlun sjúkdómsins, með sérstaka áherslu á aðgerðir til að fyrirbyggja að smit berist í nýfædd lömb. Þó sýklalyfjanotkun í búfé sé lítil hérlendis er nauðsynlegt að endurskoða vinnubrögð í tengslum við notkun sýklalyfja, sér í lagi er varðar sýklalyf sem fyrirbyggjandi meðhöndlun. Eftirlit Matvælastofnunar með sýklalyfjaónæmi hefur sýnt fram á að ónæmi er til staðar í íslensku búfé, þ.m.t. lömbum.

Þekkt er hér á landi að gefa nýfæddum lömbum (lambatöflur) sýklalyf til að fyrirbyggja slefsýki, en sýkingin er af völdum E. coli smits. Nauðsynlegt er að draga verulega úr reglubundinni notkun "lambataflna" því sýklalyf ætti fyrst og fremst að nota til lækninga, ekki sem fyrirbyggjandi aðgerð nema í undantekningatilvikum og þegar önnur úrræði hafa ekki dugað. Röng og óhófleg notkun á sýklalyfjum getur leitt til þess að bakteríur mynda ónæmi gegn sýklalyfjum og geta slíkar bakteríur borist á milli manna, dýra og umhverfis. Á síðasta ári var undirrituð yfirlýsing um sameiginlegt átak sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðismálaráðherra til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis þar sem sett var opinber stefna í baráttunni. Ábyrg og skynsamleg notkun sýklalyfja í dýrum er einn liður í stefnunni enda er það mikilvægt skref til að sporna við myndun sýklalyfjaónæmis. 

Með því að leggja áherslu á góða búskaparhætti, smitvarnir og hreinlæti er stuðlað að heilbrigði dýra og dregið þannig úr þörf fyrir sýklalyf. Við höfum öll hlutverki að gegna í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi og árangur næst aðeins í sameiginlegu átaki dýralækna og bænda. Mikilvægt er að gott samstarf ríki á milli bænda og dýralækna og skulu bændur aðeins nota lyf í samráði við dýralækni. Einnig má árétta mikilvægi þess að staðið sé vel að skráningum á lyfjanotkun í dýrum. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar til að vita magn og þróun á notkun sýklalyfja, til að meta áhrif ráðstafana sem gerðar hafa verið og til að kanna tengsl sýklalyfjanotkunar við sýklalyfjaónæmi. Slíkar upplýsingar geta einnig gefið til kynna hvar hægt sé að bæta árangur en auk þess sýnt hvar vel er staðið að málunum. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?