Fara í efni

350.000 hrognkelsi á leið til Skotlands

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í gær lagði skoskt skip af stað frá Íslandi til Skotlands með heldur óvenjulegan farm. Meðal farþega eru um 350.000 hrognkelsaseiði sem notuð verða í tilraunaverkefni í Skotlandi. Seiðunum verður sleppt í laxeldiskvíar og hafa þau það að verkefni að éta laxalýs sem herja á eldisfiska.

Hrognkelsið er alið í eldisstöð Stofnfisks í Höfnum á Reykjanesi til lífrænna varna í sjókvíum með eldislaxi. Þegar hafa verið flutt út hátt í 700.000 seiði til Færeyja á þessu ári og gefið góða raun, seiðin éta laxalús af eldislaxinum án þess að vera sjálf étin af laxinum. Samanburður á notkun seiðanna borið saman við lyfjanotkun sýnir betri árangur og minni kostnað við notkun lífrænna varna í baráttunni gegn laxalúsinni. 

Eftirlit með framleiðslu fiskeldisstöðva er í höndum Matvælastofnunar sem annast heilbrigðisskoðun á foreldrafiski og seiðum og sjúkdómaskimun. Góð sjúkdómastaða í íslensku fiskeldi hefur gert íslenskum fyrirtækjum kleift að sækja á markaði sem hafa að mestu verið lokaðir fyrir innflutningi vegna hættu á útbreiðslu smitsjúkdóma. Slíkir faraldrar valda gríðarlegu tekjutapi í fiskeldi og getur reynst erfitt að uppræta sjúkdómana eftir að þeir berast. Mikilvægt er að gæta ýtrustu smitvarna hér á landi jafnt í framleiðslunni sem og við innflutning á hrognum, seiðum og notuðum stangveiðibúnaði.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?